Varnir Evrópu treystar áfram

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins lauk síðdegis í dag í Brussel. Fram kemur í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að samskiptin við Rússland, baráttan gegn hryðjuverkum og staða mála í Norður-Kóreu hafi verið á meðal helstu umræðuefna á fundinum. Einnig var rætt um samvinnu Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og stuðning við ríki á suðurjaðri bandalagsins og stækkunarstefnu þess. Þá var fundað með utanríkisráðherra Georgíu um samstarfs- og umbótaáætlanir.

„Bandalagið heldur áfram að treysta varnir í Evrópu en leggur jafnframt áherslu á að halda samskiptaleiðum opnum og minnka spennu. Þá er einnig lögð áhersla á umbætur í öryggismálum í grannríkjum Atlantshafsbandalagsins til gera þeim betur kleift að tryggja eigið öryggi og þar með öryggi ríkja Atlantshafsbandalagsins,” er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra sem sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Fundir með utanríkisráðherrum Svíþjóðar og Finnlands fóru einnig fram.

„Það er sérstakt ánægjuefni hve samstarfið við okkar norrænu vinaþjóðir utan Atlantshafsbandalagsins er orðið náið, enda deila þau sömu gildum og leggja sitt leggja sitt að mörkum til sameiginlegs öryggis," er ennfremur haft eftir Guðlaugi Þór. Ráðherrann gerði einnig mikilvægi kvenna til að stuðla að friði og öryggi að umtalsefni á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert