„Ég er nú búin að bíta í tunguna á mér undanfarna daga vitandi það að allt sem ég segi verður lesið í ljósi þess að ég tapaði fyrir Ragnari Þór. En það er ekki hægt að sitja undir þessu rugli lengur. Ragnar Þór og hans helstu stuðningsmenn reyna að klína þessu ömurlega máli á mig og stjórn KÍ,“ segir Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara og stjórnarmaður í Kennarasambandi Íslands, á vefsíðu sinni.
Guðríður segir að stuðningsmenn Ragnars Þórs Péturssonar, sem kjörinn var formaður KÍ í síðasta mánuði og tekur við á næsta ári, hafi í kosningabaráttunni beitt frádæma skítkasti og óhróðri sem hún hafi þurft að þola. „Ég kaus að láta dylgjum og lygum ósvarað en vann þess í stað að framboði mínu á mínum forsendum, kynnti fyrir félagsmönnum sjálfa mig, áherslur mínar og talaði aldrei til mótframbjóðenda minna.“
Segir hún að það hefði líklega ekki þótt smekklegt ef hún hefði farið að ræða gamla ásökun á hendur Ragnari um að misbjóða nemanda sínum. „Ég tapaði, varð fúl í einn dag en svo heldur lífið áfram. Nú aftur á móti berast mér upplýsingar um að á lokuðum spjallvefjum kennara séu þessir sömu aðilar enn við sama heygarðshornið. En núna á það að vera undan mínum rifjum runnið að ungur maður sakar verðandi formann KÍ um misnotkun.“
Guðríður segist engin deili þekkja á manninum. Því sé hins vegar haldið fram af sömu aðilum að tilgangurinn með frásögn mannsins sé að hafa áhrif á kosningu varaformanns KÍ sem standi yfir. Segir Guðríður að markmið stuðningsmanna Ragnars sé að koma einum af frambjóðendunum og bandamanni Ragnars í varaformannsembættið.