„Þetta kemur ekki til greina“

Páll Magnússon.
Páll Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Magnússon alþingismaður þvertekur fyrir að hann ætli að bjóða sig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Prófkjörið fer fram 27. janúar og hafði nafni Páls verið velt upp sem líklegu leiðtogaefni Sjálfstæðisflokksins. Halldór Halldórsson, núverandi oddviti flokksins, gefur ekki kost á sér áfram.

Ég get alveg sagt þér að þetta er ekki efst í huga mér þessa dagana. Það eru aðrir og eðlilegri kandídatar í þetta en ég,“ segir Páll og hlær en í könnun sem gerð var í haust kom í ljós að flestir vildu fá hann sem næsta oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni.

Hann segist því ekki vera á leið af þingi yfir í Ráðhús Reykjavíkur. „Þetta kemur ekki til greina af minni hálfu. Enda er ég strákur úr Eyjum og er að sinna mínu kjördæmi.

Ýmsir nefndir til sögunnar

Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, segist ekki hafa velt þessum málum fyrir sér.

Borgar Þór Einarsson.
Borgar Þór Einarsson. Mynd/ Magasínið

„No komment,“ var svarið þegar Borgar var beðinn um að segja til um það af eða á hvort hann stefndi á borgina.

Auk þeirra hefur nafn Unnar Brár Konráðsdóttur verið nefnt til sögunnar en hún veltir stöðunni fyrir sér þessa dagana. Eyþór Arnalds, fyrr­ver­andi formaður bæj­ar­ráðs Árborg­ar, hefur áður lýst því yfir að hann útiloki ekki að hann sækist eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í borginni.

Borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir hafa bæði áhuga á því að leiða listann í komandi kosningum. Þá hafa nöfn Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa og Svanhildar Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar, verið nefnd í þessu samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka