Verðum að breyta ferðamáta okkar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði ríki og borg þurfa að …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði ríki og borg þurfa að ná samstöðu um loftslags- og loftgæðamál. mbl.is/​Hari

Reykjavíkurborg hefur fengið frábærar viðtökur hjá starfsmönnum borgarinnar við samgöngusamningi sem farið var að bjóða upp á nú í haust. Nú þegar hafa 34% borgarstarfsmanna gert slíkan samning við borgina, sem greiðir þeim fyrir að nýta sér annan ferðamáta en einkabílinn til að koma til vinnu.

Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á ­fundi Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar um nýjungar í loftslagsmálum sem haldinn var í Hörpu í morgun. „Við viljum minnka kolefnisfótsporið og  horfum til tæknilausna í því samhengi,“ sagði Dagur. „Fjarlægðin og ferðamátin skipta þó líka lykilmáli í þessu samhengi og við verðum að breyta ferðamáta okkar eins og við getum.“

Þetta megi gera með aukinni notkun á almenningssamgöngum og til þess sé borgarlínan hugsuð, auk þess sem borgin taki í notkun á næsta ári fyrstu rafstrætisvagnana. Hjólreiðar og ganga séu svo líka góðir valkostir. „Breyttur ferðamáti skiptir ekki bara máli hvað varðar umhverfið, heldur líka af því að annars munum við eyða sífellt meiri tíma í bílum okkar. Það verður sama hversu mikið við fjölgum akreinum, tafatíminn í umferðinni mun stóraukast,“ sagði Dagur.

Atlaga að Grafarvogi, Breiðholti og Árbæ

Þétting byggðar sé því lykilatriði. „Landnotkun er mikilvæg og ferðaþarfir eru henni samhliða. Við verðum að þétta byggð og fjölga þeim vinnustöðum sem eru í útjarði borgarinnar, annars mun fjölga um 70.000 bíla á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040. Það gerðist á árunum milli 1985-2015 þegar bílum í Ártúnsbrekkunni fjölgaði úr 25.000 bílum á sólarhring í 100.000  bíla. Þannig að þó að mannfjöldanum hafi fjölgað svolítið, þá jókst umferðin á götunum um tvöfalt til þrefalt meira og það gengur einfaldlega ekki,“ sagði hann.

Fundargestir á fundi Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar um nýjungar í loftslagsmálum.
Fundargestir á fundi Festu og Reykja­vík­ur­borg­ar um nýjungar í loftslagsmálum. mbl.is/​Hari

„Þeir sem sem tala fyrir því að bæta við nýjum úthverfum austan við Ártúnsbrekkuna eru því í raun að gera alvarlega atlögu að fólkinu sem býr í Grafarvogi, Breiðholti og Árbæ vegna þess að það er það vitlausasta sem hægt er að gera fyrir umferðina í borginni.“

Sagði Dagur þetta einnig vera heilmikið efnahagsmál fyrir þær fjölskyldur sem borguðu meira í samgöngur en mat.

Farið fram úr björtustu vonum

Borgin vinni að vitundarvakningu í loftslagsmálum og að því sé líka hugað í rekstri borgarinnar, m.a. með því að setja á fjórða hundrað milljónir í loftslagssamninga við starfsfólk. „Þá borgum við fólki styrk fyrir að koma öðruvísi en á einkabíl til vinnu að minnsta kosti þrisvar í viku. Þetta hefur fengið alveg frábærar viðtökur og um 3.000 manns þáðu þennan loftslagssamning á fyrstu mánuðum þessa hausts, sem er um 34% af starfsmönnum borgarinnar.“

Snertifletir við ríkið séu líka margir. „Við þurfum að ná samstöðu um loftslags- og loftgæðamál. Borgarsvæðið er lykilatriði í því og borgarlínan er hryggjarstykkið, en svo þurfum við líka að huga að rafvæðingu hafna. Þar höfum við séð sjávarútveginn á Íslandi vera leiðandi í loftslagsmálum sem er frábært, en við þurfum líka að þétta byggð.“

Reykjavíkurborg vilji áframhaldandi áherslur á samstarf við stjórnvöld og þau fyrirtæki sem séu að vinna á sínu sviði að því að ná betri árangri. Það hafi líka farið fram úr björtustu vonum borgarinnar er 104 fyrirtæki skuldbundu sig til samstarfs við borgina um að draga úr kolefnislosun sinni í kjölfar Parísarsáttmálans.

„Það er enn að bætast í þann hóp,“ sagði Dagur.  „Flest framsæknustu fyrirtæki landsins eru í þeim hópi, en það er ekki síður áhugavert hvað framgangur þeirra í sínum verkefnum hefur náð lengra og hraðar vonir voru bundnar við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert