Fær aftur framlengdan frest

Barnaverndarstofu hefur gengið erfiðlega að fá gögn og óskuðu eftir …
Barnaverndarstofu hefur gengið erfiðlega að fá gögn og óskuðu eftir framlengdum fresti. mbl.is/Golli

Barnaverndarstofa hefur fengið framlengdan frest til hádegis 14. desember til að svara bréfi velferðarráðuneytisins frá 21. nóvember. „Ástæðan fyrir því að óskað var eftir að fresturinn yrði framlengdur er sú að Barnaverndarstofu hefur gengið erfiðlega að fá gögn málsins, ekki síst þau er varða meintar kvartanir frá barnaverndarnefndum í garð forstjóra stofunnar.“ Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Flest umbeðin gögn voru ekki afhent fyrr en 1. desember síðastliðinn og enn vantar nokkuð upp á að öll gögn málsins hafi verið afhent þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar að lútandi, þ.m.t. fundargerð af fundi formanna barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu með ráðherra sem fram fór 10. nóvember sl. og önnur gögn sem tengjast þeim fundi.“ Þetta kemur einnig fram í tilkynningu. 

Í þeim gögnum sem hafa borist Barnaverndarstofu eru kvartanir sem settar voru fram í minnisblaði formanns barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 10. nóvember síðastliðinn. Tekið er fram að engar kvartanir í garð forstjóra eða Barnaverndarstofu frá öðrum barnaverndarnefndum er að finna í gögnum og engin gögn liggja fyrir um að málið hafi verið rætt á fundum barnaverndarnefnda Kópavogs og Hafnarfjarðar eða hjá öðrum barnaverndarnefndum á landinu. 

Óskað eftir mati á vanhæfni skrifstofustjóra

Barnaverndarstofa hefur óskað eftir að lagt verði mat á hvort skrifstofustjóri félagsþjónustuskrifstofu velferðarráðuneytisins, sem hefur borið ábyrgð á meðferð málsins í ráðuneytinu, kunni að vera vanhæfur, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga.

„Umræddur skrifstofustjóri gegndi stjórnunarstöðu hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar  stærstan hluta þess tíma sem ráðuneytið hefur nú til skoðunar, eða fram í febrúar 2017, en starfsemi barnaverndarnefndar Reykjavíkur tilheyrir því sviði.“ Þetta kemur jafnframt fram í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert