„Hverju er verið að bíða eftir?“

Ljósmynd/Karl Jóhann Bridde

„Hverju er verið að bíða eftir? Þarna hefðu fimm ungmenni getað farið,“ segir Karl Jóhann Bridde í samtali við mbl.is en dóttir hans var eitt af fimm ungmennum sem lentu í bílslysi á Biskupstungnabraut um þrjúleytið í dag. Eldur kom upp í bifreið sem ungmennin voru í á leið heim til sín frá Menntaskólanum á Laugarvatni eftir að hún lenti utan vegar vegna hálku.

Frétt mbl.is: Bíll gjörónýtur eftir bruna

Karl segir að sá hluti vegarins sem liggur yfir Torfastaðaheiðina sé illa þjónustaður yfir vetrarmánuðina og þannig hafi það verið lengi. Vegurinn sé að hluta til í eigu Bláskógabyggðar og að hluta í eigu Vegagerðarinnar og fyrir vikið ákveðin slagsmál í gangi um það hver eigi að þjónusta veginn og um kostnaðinn af því. Vegurinn sé hins vegar notaður mjög mikið. Bæði af íbúum á svæðinu sem og ferðamönnum.

Töpuðu fartölvum, fatnaði og skólagögnum

„Við foreldrar á svæðinu höfum oft miklar áhyggjur vitandi af börnunum okkar á ferðinni um þessa vegi á veturna,“ segir Karl. Ökumaðurinn hafi ekið miðað við aðstæður en síðan hafi komið kafli þar sem þurft hafi að hægja á og þá hafi bremsurnar ekki virkað.

Ljósmynd/Karl Jóhann Bridde

„Ég veit ekki hvers vegna í ósköpunum það kviknaði í honum,“ segir Karl aðspurður. Eftir að bifreiðin lenti utan vegar og ofan í skurði hafi ungmennin hringt eftir aðstoð og síðan reynt að átta sig betur á aðstæðum en þá fundið reykjarlykt. Kallað hafi þá verið í þau að drífa sig úr bifreiðinni og þeim tekist að opna hurðina og klöngrast út úr henni.

„Tjónið er gríðarlegt. Þau voru að koma úr skólanum og lokapróf eftir viku. Allir með tölvurnar sínar, myndavélar, síma, námsgögn, töskur og föt. Þeim tókst ekki að taka neitt með sér úr bílnum,“ segir Karl sem býr skammt frá og kom á staðinn með öll sín slökkvitæki og reyndi að slökkva í bílnum án árangurs þar til slökkviliðið kom.

„Vetrarþjónustan þarna er rosalega léleg“

Bifreiðin er gjörónýt en ungmennin sluppu án meiðsla. „Til hefur staðið að byggja þennan veg upp í fjöldamörg ár. Því hefur verið frestað gríðarlega oft,“ segir Karl. Hann segir umferðarþungann þarna meiri en sums staðar á Þjóðvegi 1. „Vetrarþjónustan þarna er rosalega léleg og þetta svæði er gjörsamlega pakkað af ferðamönnum.“

Ljósmynd/Karl Jóhann Bridde

Þrátt fyrir vaxandi umferð er engu bætt við þjónustuna segir Karl. „Síðan eru þessi krakkagrey að fara í og úr skóla, líka með Strætó niður á Selfoss, og maður er bara skíthræddur vegna þess að maður veit hversu gríðarlega léleg þjónustan er þrátt fyrir alla þessa umferð.“ Vitanlega kosti allt en þetta snúist um umferðaröryggi.

„Það vill enginn koma að alelda bíl sem barnið manns var í. Þetta var bara rosalegt,“ segir Karl. Þarna hafi sannarlega farið betur en á hafi horfst. „Eins og ég sagði við þá hjá sveitarfélaginu. Hvað þarf til? Eftir hverju er verið að bíða. Ef vegurinn hefði bara verið skafinn þá væri enginn klaki þarna. Það er eins og það sé alltaf verið að bíða eftir að eitthvað gerist. Þetta er bara augljóslega alls ekki í lagi.“

Karl bætir við að þar sem bifreiðin hafi farið út af séu rúmlega fjögurra metra djúpir skurðir beggja vegna vegarins og því um augljósa slysagildru að ræða fyrir utan aðstæður á veginum sjálfum. Taka verði á þessu áður en annað slys verði þarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert