„Ung kona, hæfileikarík og metnaðarfull, nýútskrifuð úr laganámi, ræður sig til starfa hjá stórri lögmannsstofu í Reykjavík. Starfsmaður á stofunni áreitir hana ítrekað kynferðislega og gengur mjög langt í þeim efnum. Hún reyndi að höndla, vera töff og vera ein af strákunum fyrst um sinn, en alltaf gekk þetta lengra og lengra.“
Þannig hefst ein af þeim 45 sögum sem konur í réttarvörslukerfinu hafa birt sem innlegg í #meetoo umræðuna. 156 konur úr starfsstéttinni skrifuðu undir yfirlýsingu gegn kynbundnu ofbeldi sem þær sendu frá sér í gær. Til að mynda dómarar, lögmenn og lögreglumenn.
Sagan sem vísað er í hér að ofan er ekki skrifuð af konunni sjálfri, enda er hún ekki lengur til frásagnar. Hún lést ung að aldri eftir að hafa glímt við kvíða og þunglyndi. Fram kemur í frásögninni að það hafi farið að halla mjög undan fæti hjá konunni í kjölfar áreitninnar og hún hafi leiðst út í óreglu.
Sagan er greinilega sögð af konu sem starfaði með henni á umræddri lögmannsstofu,
„Ég fékk sjálf sjokk þegar þessi maður stakk tungunni upp í eyrað á henni og greip í brjóstin á henni fyrir framan mig, allt samt svona "djók". Hún fékk loksins nóg þegar hann skellti henni á skrifborðið hjá sér og ætlaðist til þess að hún svæfi hjá sér. Hennar viðbrögð fyrir utan sjokkið var að tala við sinn yfirmann sem var kona og greina frá áreitninni.“
Nokkru síðar var konan kölluð á fund nokkurra eigenda þar sem henni var sagt upp störfum, en ekki leið á löngu þar til svipaðar sögur heyrðust af sama manni og öðrum starfsmönnum á stofunni, að fram kemur í frásögninni.
Sú sem ritar söguna segir það hafa verið hvað sárast að karlmenn úr stéttinni, menn sem þær töldu vini sína, hefðu gert lítið úr henni „sögðu hana athyglissjúka og ljúga og því miður voru það ekki bara menn því þó nokkrar konur sögðu það sama þrátt fyrir að þessi maður væri þekktur fyrir svona háttsemi.“
Málið virðist hafa fengið mikið á konuna. „Það fór að halla mjög undan fæti hjá konunni fljótlega eftir þetta og hún byrjar í óreglu og berst við kvíða og þunglyndi. Konan lést ung að aldri og það er sláandi að lesa eftirfarandi úr minningargrein um hana:
„Kannski lagðir þú of mikið á þig, því að loknu lögfræðináminu fór að halla undan fæti og því fór sem fór.“
Fleiri konur lýsa því hvernig karlmenn hafa gripið í þær, króað af og gert ráð fyrir að þær vilji kynferðislegt samneyti við þá.
Í boðum hjá ríkisstofnun áreitti skrifstofustjóri (lögfræðingur) mig ítrekað. Eitt sinn króaði hann mig af úti í horni og greip hann í klofið á mér. Í annað sinn sagði hann yfir hóp að ég væri annað hvort kynköld eða lesbísk (af því ég vildi hann ekki). Ekki það að honum eða öðrum kemur ekki við hvort ég er kynköld, lesbísk eða annað. En ungri konu fannst þetta vont, mjög vont.“
Margar sögurnar lýsa mikilli kvenfyrirlitningu af hálfu kollega kvennanna í stéttinni og áberandi margar þeirra fjalla um óviðeigandi hegðun eða tal karlkyns lögmanna.
„Eitt atvik situr í mér úr tíma í réttarfari í lagadeildinni þegar tiltekinn nafntogaður lögmaður sem nú situr á þingi var fenginn til að fabúlera við okkur um lögmannsstarfið og hafði frammi mörg niðrandi orð um "þessar vælandi kjellingar í Stígamótum" og fleira sem tengdist "veseninu" varðandi öll þessi kynferðisbrot.“
Lögmaðurinn lét gagnrýni ekki slá sig út af laginu, að fram kemur í framhaldi sögunnar:
„Þegar hann mætti gagnrýni þá fékk ég t.d. þá gusu yfir mig að það væri "augljóst hvaða klúbbi ég tilheyrði" og svo uppskar hann hlátur óharðnaðra samnemenda minna, fyrst og fremst kk sem sáu ekki sólina fyrir þessum snjalla og "orðheppna" lögmanni.“
Það virðist þó ekki aðeins hafa gerst í þetta eina skipti að lögmaðurinn misbauð laganemum með orðavali sínu.
„Þessi sami lögmaður kom einmitt í tíma að deila reynslusögum og talaði m.a. um mansal, hvað það væri nú tilgangslaust femínistaröfl að vera að taka það eitthvað sérstaklega fyrir (um það leyti sem ,,fyrsta” mansalsfórnarlambið var í fréttum). Það fauk svo í mig að ég tjáði mig eitthvað, bara til að það kæmi fram eitthvað um mansal, annað en þessi fullkomlega illa upplýsta skoðun frá honum.“
Önnur kona lýsir ítrekuðum óviðeigandi athugasemdum: „Einn úr hópi okkar lögfræðinga heilsaði mér - og örugglega fleiri konum "Hvernig ertu í henni?" Ég var orðin svo samdauna þessu að ég áttaði mig eiginlega ekki á því fyrr en kollegi minn (kona) varð vitni að þessu og átti ekki orð. Þá fyrst sá ég þetta í réttu ljósi, þ.e. hve óviðeigandi þetta væri. Ég var svo vön þessu. En, ég varð alltaf vandræðaleg. Reyndi að "djóka mig" í gegnum það fyrst en svo lét ég eins og ég heyrði þetta ekki.“
Þá segir ein kona í hópnum frá nýlegu dæmi, þar samstarfsmenn hennar fussuðu yfir #meetooo byltingunni og virtust ekki alveg skilja tilganginn:
„Á fundi í dag í vinnunni.
Samstarfskona við mig: "töff jakki“.
Miðaldra samstarfsmaður: "Já ég má víst ekki segja að þú sért fín, það er víst kynferðisleg áreitni". Ungur samstarfsmaður: "Já nákvæmlega, þetta er gengið allt of langt - *hnussar*".
Ég er nú yfirleitt með munninn fyrir neðan nefið en ég var svo kjaftstopp þarna að ég fattaði ekki einu sinni að benda á að það væri eitthvað mikið að ef fólk sæi ekki muninn á hrósi og kynferðislegri áreitni.“