„Stjórnvöld gera þetta ekki ein“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/​Hari

Það þarf frumvæði frá almenningi og fyrirtækjum og stjórnvöld þurfa að hlusta á þessar raddir og það er mikilvægt að þau geri það. Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar í Hörpu sem haldinn var nú í morgun um nýjungar í loftslagmálum. Kvaðst ráðherra ætla að lofa að gleyma þessu ekki alveg strax þar sem hann væri  búin að vera það lengi í aðhaldshlutverkinu.

Guðmundur Ingi sagði margt í loftslagsmálum til þess fallið að vekja mönnum ugg í brjósti, ekki hvað síst hér á landi. Súrnun sjávar, neikvæð áhrif þess á nytjastofna og hækkun yfirborðs sjávar væru áhyggjuefni. Mikilvægi loftslagsmála í stjórnarsáttmálanum væri hins vegar gleðiefni og sjálfur væri hann bjartsýnn að eðlisfari. „Sú sýn sem stjórnin hefur kynnt í sáttmálanum er einn af sterkustu þáttum hennar í umhverfismálum og hún er nokkuð sem að við viljum útfæra betur og í samvinnu með með sveitastjórnum og fyrirtækjum,“ sagði Guðmundur Ingi. „Þetta er stórt verkefni og vandasamt, en svo gríðarlega mikilvægt að það má ekki mistakast.“

Fjölmenni var samankomið í Hörpu.
Fjölmenni var samankomið í Hörpu. mbl.is/​Hari

Stjórnin efni þar með til nýrrar sóknar til hreinni, betri  og loftslagsvænni framtíðar. „Stjórnin mun hins vegar ekki ein og sjálf hrinda sýninni í framkvæmd,“ bætti hann við. Parísarsamkomulagið sé hornsteinn að árangri á heimsvísu og innanlands þá sé samvinna ólíkra geira mikilvæg eigi árangur að nást. „Stjórnvöld gera þetta ekki ein.“

Þurfum öll að temja okkur það hugarfar

Guðmundur Ingi rifjaði því næst upp að greint hefði verið frá því einmitt hér í Hörpu fyrr á þessu ári að Ísland gæti ekki staðið við Kyotobókunina 2020 og því mætti spyrja hvort hér væri um tómar skýjaborgir að ræða, þar sem núverandi ástand benti til áframhaldandi aukningar losunar til ársins 2030. „Er það því bara skrum að við getum verið á núlli 2040?“ spurði hann. „Ég trúi því að svo sé ekki og ég mun vinna að því. Við verðum líka öll að temja okkur það hugarfar.“

Eitt af fyrstu verkum sínum í ráðuneytinu, verði að gera vegvísi um kolefnishlutleysi. „Við gerð hans verður horf til áætlana Norðurlandanna og fyrri reynslu hér á landi sem er þó nokkur.“ Ísland geti vissulega verið stolt af sinni endurnýjanlegu orku. „Og ef að við gátum gert það þá getum við alveg rafvætt samgöngur og það borgar sig líka fjárhagslega fyrir samfélagið.“

Benti Guðmundur Ingi máli því næst á að  sjávarútvegurinn hafi verið duglegur að draga úr losun á undanförnum árum og hann vilji sá framhald á þeirri vinnu. Þá þurfi stjórnvöld líka að hefjast handa við að aðstoða sauðfárbændur við að kolefnisjafna sína grein.

„Þetta er stórt verkefni og vandasamt, en svo gríðarlega mikilvægt …
„Þetta er stórt verkefni og vandasamt, en svo gríðarlega mikilvægt að það má ekki mistakast,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/​Hari

„Stóriðjan er með hæsta þröskuldinn og ég vil hvetja hana til að gera enn betur en regluverkið segir til um, því að stóriðjan verður að vera í liði með okkur og ég veit að þar er áhugi að gera betur,“ sagði ráðherra. Þetta eitt og sér nægi samt ekki til að koma Íslandi á núllpunkt árið 2040. „Þess vegna þarf líka aðgerðir á sviði landnotkunar, kolefnisbindingu og draga úr losun koltvístrings eins og hægt er. Sjálfur er ég svo þeirrar skoðunar að við eigum að fara lengra og borga hluta skuldarinnar til baka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert