„Ég býð síðustu viku meðgöngunnar velkomna. Vona að þessi litli gutti muni ekki láta bíða eftir sér í meira en viku.“ Þetta skrifar dr. Anna Hulda Ólafsdóttir, lektor við verkfræðideild Háskóla Íslands og afrekskona í crossfit og ólympískum lyftingum, við myndband sem hún birtir á Instagram. Þó svo að það séu aðeins fjórir dagar í settan dag fer hún létt með upphífingar, ketilbjöllusveiflur og hnébeygjur.
Anna Hulda er með tæplega 70.000 fylgjendur á Instagram, en þar hefur hún verið iðin við að deila myndum og myndböndum af hreyfingu sem hún stundar á meðgöngunni. Viðbrögðin við æfingunum hafa að mestu leyti verið jákvæð, það eru fyrst og fremst bandarískir, miðaldra karlmenn, sem telja sig þurfa að koma fyrir hana vitinu.
„Ég hef bara fengið jákvæð viðbrögð hérna á Íslandi. En sum myndböndin mín hafa farið „viral“ og þá er fullt af fólki sem hefur ekki kynnt sér þetta, yfirleitt karlar, og ef ég svara þeim þá endar það alltaf þannig að þeir geta ekki sýnt fram á neitt,“ segir Anna Hulda. Hún segir einnig að mikilvægast af öllu í ferlinu sé að hlusta á eigin líkama, og það geri hún. „Svo er það líka þannig að ég myndi aldrei mæla með að gera allt sem ég er að gera fyrir bara einhverja konu sem er ófrísk, það eru allir svo rosalega misjafnir.“
Verstu viðbrögðin hefur hún fengið frá bandarískum karlmönnum sem hafa meðal annars áhyggjur af þroska ófædds sonar hennar. „Ég bara læt það sem vind um eyru þjóta, þetta var erfitt fyrst, en ég er með ágætis bein í nefinu og hef ákveðið að lifa samkvæmt minni sannfæringu.“
Anna Hulda er lektor í verkfræði við Háskóla Íslands, ásamt því sem hún þjálfar crossfit í Crossfit Reykjavík. „Ég er í fullu starfi og rúmlega það meira að segja og ég kemst í raun ekki í fæðingarorlof fyrr en í janúar,“ segir hún. Anna Hulda hefur náð að samtvinna áhuga sinn á verkfræði og crossfit með góðum árangri, en hún hefur keppt í ólympískum lyftingum og fengið alþjóðleg verðlaun fyrir rannsóknir á verkefna- og gæðastjórnun sem hún hefur nálgast með kvikum kerfislíkönum.
„Núna stunda ég ýmsar rannsóknir með kvikum kerfislíkönum þar sem ég skoða allt milli himins og jarðar, ég er til að mynda í stóru Evrópusambandsverkefni sem nefnist Valumics þar sem við skoðum matvælakeðjur í þessu samhengi. Þar að auki kenni ég við Háskóla Íslands,“ segir hún, en hún hefur bæði kennt kúrsa um kvik kerfislíkön og hermun sem og stóra inngangskúrsa. „Svo hef ég líka aðeins verið að þjálfa í Crossfit Reykjavík. Ég tek aðallega morgna og geri það fyrst og fremst til að vekja sjálfa mig áður en ég fer niður í vinnu.“
Anna Hulda segir að með því að mæta á crossfit æfingar fái hún orku til að takast á við verkefni dagsins. „Mér finnst ég ná að afkasta miklu meira ef ég næ að hreyfa mig. Ég er ekkert að hreyfa mig í líkingu við marga sem ég hef verið að keppa við, en að staðaldri er ég í mesta lagi að ná fimm klukkutímum yfir vikuna. En núna, á meðan ég er ófrísk, er ég þreyttari og hef verið að vinna langa vinnudaga uppi í háskóla, þá er ég kannski að mæta bara tvisvar til þrisvar í viku.“
Anna Hulda reynir eins og hún getur að mæta á æfingar og segir stutta æfingu klárlega betri en enga. „þegar ég er ekki ófrísk mæti ég alveg þó að ég hafi bara 20 mínútna eyðu. Það er það sem mér finnst svo rosalega gott við crossfit, það eru svo margar æfingar sem þú getur fengið mikið út úr á stuttum tíma ef þú nýtir tímann vel.“
Á meðgöngunni hefur Anna Hulda haldið sínu striki á æfingum, en passar fyrst og fremst upp á hjartsláttinn og að hlusta á líkamann. „Ég er ekki að taka æfingar þar sem mér líður eins og ég hafi verið að ganga fram af mér.“ Hún hefur einnig ráðfært sig við ljósmæður á meðgöngunni þegar kemur að hreyfingu. „Það er í rauninni ekkert slæmt sem ég get gert fyrir barnið, nema ég þarf að pass að púlsinn fari ekki alltof hátt upp. Það er svona það helsta, og svo náttúrulega passa ég mig á að detta ekki á bumbuna,“ segir hún og hlær.
Fyrir á Anna Hulda sjö ára stelpu með eiginmanni sínum, tónlistamanninum Gunnari Hilmarssyni, og segir hún meðgönguna nú vera talsvert ólíka þeirri fyrri.
„Ég byrjaði hvorki í lyftingum né crossfit fyrr en daman mín var orðin eins árs,“ segir hún. Anna Hulda er samt sem áður með góðan íþróttalegan bakgrunn úr fimleikum. „Ég var í landsliðinu í áhaldafimleikum en hætti sökum bakmeiðsla þegar ég var að byrja í menntaskóla.“
Fyrri meðgangan gekk nokkuð vel, en daginn fyrir settan dag fékk Anna Hulda slæmar fréttir. „Mamma mín greindist með krabbamein daginn áður en ég átti að eiga. Við vorum rosalega nánar. Hún dó síðan bara mánuði seinna. Ég var í alveg ár að jafna mig á því, eða, ég jafna mig aldrei á því, en ég komst aldrei almennilega af stað í lífinu fyrr en ég tók meðvitaða ákvörðun að taka smá snúning og fara að hreyfa mig.“
Anna Hulda byrjaði því ekki síður í crossfit fyrir andlegu hliðina heldur en þá líkamlegu. „Að hreyfa sig er besta meðal sem ég veit um. Crossfit bjargaði lífi mínu. Ég var að gefast upp en fann þá þessa íþrótt og hún er svo mikil áskorun, þú ert alltaf að læra eitthvað nýtt.“
Meðgangan rifjar upp minningar um móðurmissinn. „Það rifjar upp minningar að verða aftur ófrísk en hreyfingin heldur mér gangandi,“ segir Anna Hulda, sem hefur liðið vel alla meðgönguna og þar spilar hreyfingin stóran hluta. „Ég græði auka klukkutíma á því að fara að hreyfa mig. Ég fæ miklu meiri orku yfir daginn ef ég byrja hann með hreyfingu og ég er alveg viss um að ég næði ekki að vinna svona mikið nema með því að hreyfa mig.“
Mamma Önnu Huldu, Guðrún Þórsdóttir heitin, er hennar helsta fyrirmynd og hún heldur áfram að líta upp til hennar. „Ég hef rosalega góða fyrirmynd. Ég tók meðvitaða ákvörðun að segja já við alls konar hlutum og nota þennan tíma sem maður hefur hérna eins og vel og ég get. Mamma var svona, manni fannst hún alltaf hafa miklu meiri tíma en allir hinir, hún gerði svo mikið, þannig að ég ákvað að það myndi vera eitthvað sem ég myndi reyna að gera.“
Anna Hulda er ekki viss hvort hún nær að troða inn einni æfingu áður en litli guttinn mætir á svæðið, en ef hún nær því mun hún svo sannarlega njóta þess.