„Crossfit bjargaði lífi mínu“

Anna Hulda Ólafsdóttir stundar crossfit af kappi. Hún er komin …
Anna Hulda Ólafsdóttir stundar crossfit af kappi. Hún er komin rúmar 39 vikur á leið og hefur liðið vel alla meðgönguna. Hún er sannfærð um að í því spili crossfit-iðkun lykilhlutverk. Ljósmynd/Aðsend

„Ég býð síðustu viku meðgöng­unn­ar vel­komna. Vona að þessi litli gutti muni ekki láta bíða eft­ir sér í meira en viku.“ Þetta skrif­ar dr. Anna Hulda Ólafs­dótt­ir, lektor við verk­fræðideild Há­skóla Íslands og af­reks­kona í cross­fit og ólymp­ísk­um lyft­ing­um, við mynd­band sem hún birt­ir á In­sta­gram. Þó svo að það séu aðeins fjór­ir dag­ar í sett­an dag fer hún létt með upphíf­ing­ar, ketil­bjöllu­sveifl­ur og hné­beygj­ur.

Anna Hulda er með tæp­lega 70.000 fylgj­end­ur á In­sta­gram, en þar hef­ur hún verið iðin við að deila mynd­um og mynd­bönd­um af hreyf­ingu sem hún stund­ar á meðgöng­unni. Viðbrögðin við æf­ing­un­um hafa að mestu leyti verið já­kvæð, það eru fyrst og fremst banda­rísk­ir, miðaldra karl­menn, sem telja sig þurfa að koma fyr­ir hana vit­inu.   

Banda­rísk­ir karl­menn telja sig vita bet­ur

„Ég hef bara fengið já­kvæð viðbrögð hérna á Íslandi. En sum mynd­bönd­in mín hafa farið „viral“ og þá er fullt af fólki sem hef­ur ekki kynnt sér þetta, yf­ir­leitt karl­ar, og ef ég svara þeim þá end­ar það alltaf þannig að þeir geta ekki sýnt fram á neitt,“ seg­ir Anna Hulda. Hún seg­ir einnig að mik­il­væg­ast af öllu í ferl­inu sé að hlusta á eig­in lík­ama, og það geri hún. „Svo er það líka þannig að ég myndi aldrei mæla með að gera allt sem ég er að gera fyr­ir bara ein­hverja konu sem er ófrísk, það eru all­ir svo rosa­lega mis­jafn­ir.“

Verstu viðbrögðin hef­ur hún fengið frá banda­rísk­um karl­mönn­um sem hafa meðal ann­ars áhyggj­ur af þroska ófædds son­ar henn­ar. „Ég bara læt það sem vind um eyru þjóta, þetta var erfitt fyrst, en ég er með ágæt­is bein í nef­inu og hef ákveðið að lifa sam­kvæmt minni sann­fær­ingu.“

Verðlauna­hafi í verk­fræði og lyft­ing­um

Anna Hulda er lektor í verk­fræði við Há­skóla Íslands, ásamt því sem hún þjálf­ar cross­fit í Cross­fit Reykja­vík. „Ég er í fullu starfi og rúm­lega það meira að segja og ég kemst í raun ekki í fæðing­ar­or­lof fyrr en í janú­ar,“ seg­ir hún. Anna Hulda hef­ur náð að sam­tvinna áhuga sinn á verk­fræði og cross­fit með góðum ár­angri, en hún hef­ur keppt í ólymp­ísk­um lyft­ing­um og fengið alþjóðleg verðlaun fyr­ir rann­sókn­ir á verk­efna- og gæðastjórn­un sem hún hef­ur nálg­ast með kvik­um kerf­is­líkön­um.

„Núna stunda ég ýms­ar rann­sókn­ir með kvik­um kerf­is­líkön­um þar sem ég skoða allt milli him­ins og jarðar, ég er til að mynda í stóru Evr­ópu­sam­bands­verk­efni sem nefn­ist Valumics  þar sem við skoðum mat­væla­keðjur í þessu sam­hengi. Þar að auki kenni ég við Há­skóla Íslands,“ seg­ir hún, en hún hef­ur bæði kennt kúrsa um kvik kerf­is­líkön og hermun sem og stóra inn­gangskúrsa. „Svo hef ég líka aðeins verið að þjálfa í Cross­fit Reykja­vík. Ég tek aðallega morgna og geri það fyrst og fremst til að vekja sjálfa mig áður en ég fer niður í vinnu.“

Anna Hulda hefur keppt í ólympískum lyftingum, ásamt því að …
Anna Hulda hef­ur keppt í ólymp­ísk­um lyft­ing­um, ásamt því að stunda cross­fit. Ljós­mynd/​Aðsend

Anna Hulda seg­ir að með því að mæta á cross­fit æf­ing­ar fái hún orku til að tak­ast á við verk­efni dags­ins. „Mér finnst ég ná að af­kasta miklu meira ef ég næ að hreyfa mig. Ég er ekk­ert að hreyfa mig í lík­ingu við marga sem ég hef verið að keppa við, en að staðaldri er ég í mesta lagi að ná fimm klukku­tím­um yfir vik­una. En núna, á meðan ég er ófrísk, er ég þreytt­ari og hef verið að vinna langa vinnu­daga uppi í há­skóla, þá er ég kannski að mæta bara tvisvar til þris­var í viku.“

Anna Hulda reyn­ir eins og hún get­ur að mæta á æf­ing­ar og seg­ir stutta æf­ingu klár­lega betri en enga. „þegar ég er ekki ófrísk mæti ég al­veg þó að ég hafi bara 20 mín­útna eyðu. Það er það sem mér finnst svo rosa­lega gott við cross­fit, það eru svo marg­ar æf­ing­ar sem þú get­ur fengið mikið út úr á stutt­um tíma ef þú nýt­ir tím­ann vel.“

„Ekk­ert slæmt sem ég get gert fyr­ir barnið“

Á meðgöng­unni hef­ur Anna Hulda haldið sínu striki á æf­ing­um, en pass­ar fyrst og fremst upp á hjart­slátt­inn og að hlusta á lík­amann. „Ég er ekki að taka æf­ing­ar þar sem mér líður eins og ég hafi verið að ganga fram af mér.“ Hún hef­ur einnig ráðfært sig við ljós­mæður á meðgöng­unni þegar kem­ur að hreyf­ingu. „Það er í raun­inni ekk­ert slæmt sem ég get gert fyr­ir barnið, nema ég þarf að pass að púls­inn fari ekki alltof hátt upp. Það er svona það helsta, og svo nátt­úru­lega passa ég mig á að detta ekki á bumb­una,“ seg­ir hún og hlær. 

Fyr­ir á Anna Hulda sjö ára stelpu með eig­in­manni sín­um, tón­lista­mann­in­um Gunn­ari Hilm­ars­syni, og seg­ir hún meðgöng­una nú vera tals­vert ólíka þeirri fyrri.

„Ég byrjaði hvorki í lyft­ing­um né cross­fit fyrr en dam­an mín var orðin eins árs,“ seg­ir hún. Anna Hulda er samt sem áður með góðan íþrótta­leg­an bak­grunn úr fim­leik­um. „Ég var í landsliðinu í áhaldafim­leik­um en hætti sök­um bak­meiðsla þegar ég var að byrja í mennta­skóla.“

7 ára dóttir Önnu Huldu fer oft með henni á …
7 ára dótt­ir Önnu Huldu fer oft með henni á æf­ing­ar og þykir það mikið sport. Ljós­mynd/​Aðsend

Meðgang­an rifjar upp móður­missinn

Fyrri meðgang­an gekk nokkuð vel, en dag­inn fyr­ir sett­an dag fékk Anna Hulda slæm­ar frétt­ir. „Mamma mín greind­ist með krabba­mein dag­inn áður en ég átti að eiga. Við vor­um rosa­lega nán­ar. Hún dó síðan bara mánuði seinna. Ég var í al­veg ár að jafna mig á því, eða, ég jafna mig aldrei á því, en ég komst aldrei al­menni­lega af stað í líf­inu fyrr en ég tók meðvitaða ákvörðun að taka smá snún­ing og fara að hreyfa mig.“

Anna Hulda byrjaði því ekki síður í cross­fit fyr­ir and­legu hliðina held­ur en þá lík­am­legu.  „Að hreyfa sig er besta meðal sem ég veit um. Cross­fit bjargaði lífi mínu. Ég var að gef­ast upp en fann þá þessa íþrótt og hún er svo mik­il áskor­un, þú ert alltaf að læra eitt­hvað nýtt.“

Meðgang­an rifjar upp minn­ing­ar um móður­missinn. „Það rifjar upp minn­ing­ar að verða aft­ur ófrísk en hreyf­ing­in held­ur mér gang­andi,“ seg­ir Anna Hulda, sem hef­ur liðið vel alla meðgöng­una og þar spil­ar hreyf­ing­in stór­an hluta. „Ég græði auka klukku­tíma á því að fara að hreyfa mig. Ég fæ miklu meiri orku yfir dag­inn ef ég byrja hann með hreyf­ingu og ég er al­veg viss um að ég næði ekki að vinna svona mikið nema með því að hreyfa mig.“

Anna Hulda hefur hreyft sig reglulega alla meðgönguna, en þó …
Anna Hulda hef­ur hreyft sig reglu­lega alla meðgöng­una, en þó mun minna en hún gerði áður en hún varð ólétt. Ljós­mynd/​Aðsend

Mamma Önnu Huldu, Guðrún Þórs­dótt­ir heit­in, er henn­ar helsta fyr­ir­mynd og hún held­ur áfram að líta upp til henn­ar. „Ég hef rosa­lega góða fyr­ir­mynd. Ég tók meðvitaða ákvörðun að segja já við alls kon­ar hlut­um og nota þenn­an tíma sem maður hef­ur hérna eins og vel og ég get. Mamma var svona, manni fannst hún alltaf hafa miklu meiri tíma en all­ir hinir, hún gerði svo mikið, þannig að ég ákvað að það myndi vera eitt­hvað sem ég myndi reyna að gera.“

Anna Hulda er ekki viss hvort hún nær að troða inn einni æf­ingu áður en litli gutt­inn mæt­ir á svæðið, en ef hún nær því mun hún svo sann­ar­lega njóta þess.

Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi, það er …
Allt er hægt ef vilj­inn er fyr­ir hendi, það er nokkuð ljóst. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert