Magnþrungin spenna hafði myndast á Stóra sviði Borgarleikhússins þegar gestum var hleypt inn í salinn, en á sviðinu sátu 24 konur úr ýmsum starfsstéttum samfélagsins. Þögnin var algjör þegar þær fyrstu stóðu upp og gengu fram á sviðið til að lesa fyrstu sögurnar.
Sögur kvennanna voru af öllum stærðum og gerðum, og voru lesnar upp ein af annarri og stóð lesturinn yfir í um klukkustund. Eftirvæntingin leyndi sér ekki meðal áhorfenda, en spennan í andrúmsloftinu magnaðist með hverri sögu. Áhorfendur tóku saman andköf, hlógu saman og grétu saman yfir sumum frásagnanna. Þess á milli ríkti dauðaþögn í salnum.
Allar lýstu sögurnar kynbundinni áreitni og ofbeldi, og ljóst er orðið að engin starfsstétt er undanskilin, hvort sem það eru leikkonur, fjölmiðlakonur, konur í stjórnmálum, íþróttakonur eða í hvaða stöðu sem er. Allar hafa þær orðið fyrir misrétti kyns síns vegna.
Margar lýstu því meira að segja hvernig þær hafi talið slíka hegðun eðlilega þar til #metoo byltingin fór af stað. Sumar höfðu fengið óviðeigandi athugasemdir frá starfsbræðrum sínum, aðrar verið snertar gegn vilja sínum, enn aðrar eltar upp á hótelherbergi, byrlað nauðgunarlyfi og nauðgað. Flestar þessara kvenna áttu það einnig sameiginlegt að hafa ekki þorað að segja frá, og oft var ekki tekið mark á þeim sem þorðu.
Halldóra Geirharðsdóttir endaði lesturinn á frásögn konu sem var áreitt af samstarfsmanni nú um helgina á viðburði fyrirtækisins. Hún lýsti því hvernig hún hefði æpt á manninn, hrint honum frá sér af öllu afli. Hún hefði látið samstarfsfélaga sína vita, auk yfirmanna, þar sem hún fékk frábæran stuðning. Hún hefði hugsað til okkar allra þegar atvikið átti sér stað, við það hefði hún fengið kjark því hún vissi að hún hefði heilan her á bak við sig. Hún fór heim, bar höfuðið hátt og hló að tímasetningu mannsins.
Þessi lokafrásögn uppskar mikil fagnaðarlæti og hlátur. Áhorfendur stóðu upp og lófatakið dundi í fleiri mínútur. Mikil samstaða var meðal fólks að sýningu lokinni, en konurnar á sviðinu föðmuðust, auk fjölda fólks í áhorfendaskaranum. Upplesturinn var afar áhrifamikill og mikil samstaða myndaðist meðal áhorfenda sem veltu meðal annars fyrir sér hvað myndi gerast næst.