„Við vorum fulltrúar þeirra þúsunda sem hafa tjáð sig og það er heiður að hafa fengið að standa á sviðinu með þessum konum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. „Þetta sýnir hversu miklu samstaða kvenna hefur skipt í að vekja umhugsun og vitund fólks í landinu um þetta mein.“
Katrín var meðal þeirra sem lásu frásagnir kvenna sem litið hafa dagsins ljós í #metoo-byltingunni hér á landi á Stóra sviði Borgarleikhússins í dag. Þangað mætti fjöldi fólks en viðburðurinn var haldinn í tilefni alþjóðadags mannréttinda og lokadegi 16 daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.
„Þetta eru mismunandi frásagnir en allar áhrifamiklar og verða vonandi til þess að við vinnum úr þessari vitundarvakningu sem mér finnst hafa orðið. Bæði þarf að tryggja að nýjar kynslóðir alist upp með breytt viðhorf og að við sem erum eldri endurskoðum okkar gömlu viðhorf.“
Aðspurð segir Katrín að stærð og umfang #metoo-byltingar hafi í raun ekki komið sér á óvart.
„Eins og allar konur þekkir maður þetta sjálfur og þekkir þetta í kringum sig. En auðvitað er magnað að sjá hvernig samstaða kvenna hefur skilað afli út í samfélagið og gerbreytt umræðunni á skömmum tíma.“
Margir karlmenn hafa haft samband við Katrínu til þess að ræða minningar sínar um atvik af þessu tagi. Henni finnst það jákvætt og segir mikilvægt að byggja á því sem byltingin hefur áorkað.
„Það er mikilvægt að við öll vinnum úr þessu á okkar heimavettvangi og hvað varðar stjórnmálin skiptir máli að við styðjum betur við brotaþola í gegnum dómskerfið og fræðslu í gegnum menntakerfið til að breyta menningunni.“
Katrín bætir við að við öll höfum okkar eigin hlutverki að gegna í nærsamfélaginu þó að stjórnvöld hafi sínar skyldur.