Hreppsnefnd Árneshrepps mun á næsta fundi sínum taka ákvörðun um hvort ráðist verði í kostamat á virkjun innan sveitarfélagsins annars vegar og stofnun þjóðgarðs hins vegar og hvort boð Sigurðar Gísla Pálmasonar, stjórnarmanns hjá IKEA, um að greiða fyrir matið verði þegið.
Sigurður Gísli setti hugmyndina að kostamatinu fram í athugasemdum sínum við skipulagsbreytingar sem auglýstar voru nýlega vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Hann telur að kostagreining, sem unnin yrði af til þess bærum sérfræðingum, myndi taka 3-4 mánuði. Niðurstöðuna yrði svo hægt að nýta til að taka upplýsta ákvörðun um framhaldið á forsendum heimamanna, samfélaginu á Ströndum til heilla.
„Þannig gæti hreppsnefndin á endanum tekið ákvörðun sem byggð væri á raunverulegum valkostum og vonandi skapað sátt um niðurstöðuna, hver sem hún verður,“ segir Sigurður Gísli í samtali við mbl.is.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir að hugmynd að þjóðgarði eða verndarsvæði sé að sínu mati að koma of seint fram. Vinna varðandi Hvalárvirkjun hafi staðið árum saman og sé nú komin vel á veg. Hún telur ljóst að einhverjir landeigendur í hreppnum séu ekki áhugasamir um slíkt fyrirkomulag. Að hennar mati er verndarsvæði sem útilokar virkjun ekki í spilunum.
Sigurður Gísli bendir á að hugmynd um þjóðgarð á Ströndum sé ekki ný af nálinni. Hins vegar hafi kostir stofnunar slíks garðs ekki enn verið metnir. „Þjóðgarðar eru að slíta barnsskónum á Íslandi. Það er að koma í ljós að þeir geta haft veruleg hagræn áhrif á nærsamfélög. Þar skapast bæði heilsárs- og sumarstörf. Þess vegna finnst mér að kanna ætti kosti þess að stofnsetja slíkan garð eða það sem ég vill kalla verndarsvæði á Ströndum.“
Sigurður kynnti tillögu sína fyrir hreppsnefndinni um síðustu helgi. Hugmyndin gengur m.a. út á það að kanna hug heimafólks og annarra hollvina Árneshrepps til framtíðaruppbyggingar í sveitarfélaginu. „Hvað finnst þeim að leggja eigi áherslu á? Hvað finnst þeim gefa svæðinu gildi? Hvað gerir það að verkum að fólki er umhugað um að byggð haldist áfram í Árneshreppi?“ spyr Sigurður sem er þeirrar skoðunar að óbyggð víðerni, náttúra og menning Árneshrepps séu einstakar auðlindir sem hægt sé að virkja með ýmsum hætti.
Samhliða viðhorfskönnuninni yrðu metnir kostir og gallar þess að stofna þjóðgarð annars vegar og að reisa virkjun hins vegar út frá hagrænum, umhverfislegum og samfélagslegum áhrifum.
Eva oddviti segir að verkefni Byggðarstofnunar, Brothættar byggðir, sem Árneshreppur er nú þátttakandi í, sé einmitt til þess fallið að fá fram sjónarmið íbúanna í þessum efnum. „Það var haldinn íbúafundur á vegum verkefnastjórnar Brothættra byggða hér í síðustu viku og það er fjöldinn allur af hugmyndum og tillögum komnar fram nú þegar,“ segir Eva. „Við getum nefnilega gert heilmikið til að bjarga okkur sjálf.“
Að sögn Sigurðar Gísla gæti þjóðgarður haft annað og meira hlutverk en það eitt að vernda náttúruna. Þannig yrði búseta innan hans og aðstæður skapaðar til rannsókna og þróunar atvinnulífs. Slík svæði er þegar að finna víða um heim undir merkjum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, þangað sem Sigurður sækir hugmynd sína. Verkefnið kallast „Man and the Biosphere“ eða Maður í lífheimi.“ Ekki þyrfti að koma til eignarnáms lands við stofnun verndarsvæðisins og hefðu einhverjir landeigendur ekki áhuga á að vera með í verkefninu væri þeim frjálst að standa utan þess. Frumkvæði að stofnsetningunni þyrfti ekki að koma frá ríkinu.
Eva telur alveg ljóst að landeigendur, m.a. í Ófeigsfirði, hafi ekki hug á því að tilheyra slíku svæði. Að auki taki ár og jafnvel áratugi, eins og dæmin hér á landi sýni, að setja þjóðgarð á stofn og að ríkið þurfi að koma að því. „Við höfum einfaldlega ekki tíma til að bíða svo lengi,“ segir Eva. Þá segist hún sannfærð um að það sama eigi við um verndarsvæði undir hatti UNESCO, slíkt væri tímafrekt og alls ekki víst að það myndi ganga í gegn yfir höfuð. Hún bendir á að kostagreining eins og Sigurður Gísli hefur rætt um gæti tekið 3-4 mánuði og að það sé langur tími að hennar mati.
„Svona svæði, sem myndi algjörlega útiloka virkjun, það er að mínu mati ekki í spilunum eins og þetta horfir við mér í dag. En við í hreppsnefndinni eigum eftir að ræða þetta betur og ákveða hvað við viljum gera,“ segir Eva.
Rætt hefur verið um Hvalárvirkjun í áratugi en aldrei sem nú. Virkjunarhugmyndin var sett í orkunýtingarflokk rammaáætlunar árið 2013 og gert ráð fyrir henni í aðalskipulagi Árneshrepps ári síðar. Þegar hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum og breytingar á skipulagi hreppsins, m.a. vegna vinnuvega um fyrirhugað virkjanasvæði, verið auglýstar. Við þær bárust tæplega tuttugu athugasemdir. Enn á eftir að afgreiða tillögurnar í hreppsnefndinni. Verði þær samþykktar er næsta skref framkvæmdaaðilans VesturVerks að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni. Gangi þessar áætlanir eftir mun Hvalárvirkjun fara að framleiða rafmagn á árunum 2023-2024.
Í Árneshreppi eru um 46 manns með lögheimili. Vetursetu á svæðinu hafa aðeins á þriðja tug manna. Í hreppsnefnd eiga fimm íbúar sæti. Þrír þeirra eru hlynntir Hvalárvirkjun en tveir eru henni mótfallnir.
Íbúar þessa fámennasta sveitarfélags landsins hafa í ár og áratugi beðið eftir nauðsynlegum samgöngubótum, m.a. úrbótum á veginum um Strandir og tíðari snjómokstri. Vegaframkvæmdum hefur ítrekað verið frestað þó að þær hafi verið komnar inn á samgönguáætlun og snjómokstur er enginn á löngu tímabili ár hvert.
Sigurður Gísli segist engra hagsmuna eiga að gæta í Árneshreppi. Hann láti sig málið varða sem almennur borgari og náttúruunnandi. Hans boði fylgi engar kvaðir um hvað svo verði gert í framhaldi kostagreiningarinnar. Það er hins vegar hans skoðun að það sé öllum til heilla að hafa fleiri en einn valkost uppi á borðum og því hvetur hann hreppsnefnd Árneshrepps til að staldra nú við, bíða með afgreiðslu skipulagstillagna og skoða fleiri kosti en virkjun á svæðinu. „Þegar taka á stórar ákvarðanir sem varða heil sveitarfélög og framtíð þeirra þarf að skoða fleiri en einn valmöguleika. Á því tapar enginn.“
Eva oddviti segir að þegar öllu sé á botninn hvolft eigi heimamenn sjálfir mest að hafa um það að segja hvað verði gert sveitarfélaginu. „Því miður gleymir fólk því oft.“
Eva segir að hugmynd Sigurðar Gísla hafi þegar verið rædd á einum hreppsnefndarfundi og verði einnig rædd á þeim næsta sem er á dagskrá 15. desember. Hún á von á því að ákvörðun um framhald málsins verði tekin á þeim fundi.