Allt frá tímum Fjalla Bensa, sem segir af í Aðventu Gunnars Gunnarssonar, hefur tíðkast að fara til eftirleita á aðventunni og leita eftirlegukinda.
Nú á dögum velja menn sér samt auðveldari ferðamáta en tvo jafnfljóta, en ekkert hafði Fjalla Bensi annað, enda tækninni fleygt fram og aðrir tímar nú, nær eitt hundrað árum síðar.
Gott veður var, stillt og frost -15 til 20 gráður.
Frískandi ferðaveður og smalar með eplakinnar í tilefni jóla föstunnar.
Farið var á sexhjóli og fjórhjóli inn Jökulsáreyrar inn á Smjörtungudal austan Jöklu, en ekkert fannst þar. Vitað var þó um tvær kindur inni við Reykjará norðan Jöklu og var farið var á snjósleða þangað til að fanga þær.
Kindurnar tvær, veturgamlir ær, fundust síðan skammt innan við Selið og voru ekki alveg að sætta sig við að vera fangaðar.
Það tókst þó eftir æsilegan eltingaleik þriggja manna á tveimur jafnfljótum um börð, bala, grafninga hálf fulla af snjó og gilskorninga.
Tókst loks að stökkva á þær í grafningi og binda niður á sexhjólið og var síðan trillað með þær til síns heima að Brú, efsta bæ á Jökuldal.