Aldrei hefur meiri úrgangur borist inn á endurvinnslustöðvar Sorpu en nú í ár. Þykir þetta magn til marks um aukið góðæri í þjóðfélaginu og slær meira að segja út hið alræmda ár 2007.
Samfara þessari auknu velsæld kaupa landsmenn sér nú meira af nýjum hlutum í stað notaðra, eins og algengt var á árunum eftir hrun og er nú svo komið að mikið af munum er afþakkað í Góða hirðinum því þeir seljast ekki.
„Það er gífurlega mikið magn að berast í gámana. Fólk er að endurnýja eða losa sig við hluti sem það telur nothæfa og vill gefa áfram en við einfaldlega náum ekki að selja hlutina lengur í Góða hirðinum. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað undanfarið eitt og hálft ár,“ segir Ragna Halldórsdóttir, deildarstjóri umhverfis- og fræðsludeildar hjá Sorpu í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.