Reyndi að nauðga læknanema í búningsklefa

Gerendur eru oftast karlkyns samstarfsmenn sem eru ofar í valdastiganum …
Gerendur eru oftast karlkyns samstarfsmenn sem eru ofar í valdastiganum að sögn kvenna í læknastétt. AFP

Á fjórða hundrað konur í  læknastétt hafa undirritað áskorun þar sem skorað er á starfsmenn og stjórnendur að uppræta kynbundið áreit, mismunun og kynferðislegt ofbeldi í starfi.

Síðastliðnar vikur hafi konur í læknastétt deilt reynslusögum úr starfi í lokuðum hópi á samfélagsmiðlum. Þær frásagnirnar beri því miður vitni um kynbundið áreiti, mismunun og kynferðislegt ofbeldi í starfi, jafnvel þannig að áhrif hafi haft á starfsferil viðkomandi konu. Það sé óásættanlegt.

„Gerendur eru oftast karlkyns samstarfsmenn sem eru ofar í valdastiganum, en einnig eru dæmi um áreiti frá yngri samstarfsmönnum og frá skjólstæðingum. Þá eru dæmi þess að aðrar starfsstéttir taki þátt í kynbundnu áreiti og mismunun.“

Yngri kvenlæknar virðist mest verða fyrir barðinu á kynbundnu áreiti og ofbeldi, en áreitni og mismunun gagnvart sérfræðilæknum komi oftar fram sem  þöggun og jaðarsetning.

„Til þessa hefur kynbundið áreiti, mismunun og kynferðisofbeldi sjaldan verið tilkynnt, líklega vegna þess að sá sem fyrir áreitinu verður er oft í veikri stöðu gagnvart geranda. Þessu verður að breyta og er mikilvægt að verkferlar séu aðgengilegir og tekið sé á málum af festu. Við væntum þess að allir samstarfsmenn okkar og stjórnendur taki höndum saman til að uppræta þennan ósóma. Kynbundið ofbeldi, áreiti og mismunun á ekki að líðast, hvorki á vinnustöðum né annars staðar í samfélaginu.“

„Búinn að troða tungunni upp í mig“

Áskoruninni fylgdu 10 valdar frásagnir íslenskra kvenna í læknastétt og er brot af þeim birt hér fyrir neðan.

„Ég var 4. árs læknanemi að fara heim nálægt miðnætti eftir vakt. Á þessum tíma voru læknar og læknanemar saman í búningsklefa en ekki kynjaskipt. Inn kemur sérfræðingur sem kallaður hafði verið inn akút og fer handan við hornið í sinn búningsklefa. Þar sem ég stend fáklædd kemur hann allt í einu aftan að mér og reynir að nauðga mér. Ég náði að mótmæla og ýta honum frá mér (hann hélt áfram að reyna) og komst út og heim. Sagði góðri vinkonu minni og kollega frá þessu og hún studdi mig í þessu trauma, en aldrei hefði manni dottið í hug að kæra manninn. Fyllist enn hrolli við tilhugsunina í dag.“

Önnur frásögn er frá læknanema í sérnámi sem var staddur á þingi erlendis.

„Eftir kvöldverð og hóflega víndrykkju labba allir samferða heim á leið en fljótlega eru bara ég og hæstráðandi á deildinni eftir þar sem okkar hótel voru lengra frá. Áður en ég veit af er hann búinn að troða tungunni upp í mig og útlistar hvað hann langi til að sofa hjá mér. Náði einhvern veginn að djóka þetta burt en þetta sat hrikalega í mér og ég var eiginlega skelfingu lostin því þessi maður hafði vald til að gera líf mitt að helvíti á deildinni og eyðileggja framtíð mína. Ef þetta hefði verið jafningi minn í sérnáminu hefði ég getað hellt mér yfir hann en þarna snýst þetta um gríðarlegt valdaójafnvægi og ótta í kjölfarið.“

Mismununin kemur einnig fram í launakjörum.

„Var boðuð í launaviðtal þegar sérfræðileyfið í var í höfn. Var vel undirbúin og búin að skoða launin sem voru í boði í kring. Mér voru boðin lægri laun en karlkyns kollega á sama reki og fannst viðkomandi karlkyns yfirmanni það bölvuð frekja og vanþakklæti í mér að „þiggja það ekki“ enda alveg nóg fyrir svona stelpu. Ég gekk út.“

Tæplega fjögur hundruð konur í læknastéttinni skrifuðu undir áskorunina.
Tæplega fjögur hundruð konur í læknastéttinni skrifuðu undir áskorunina. Ljósmynd verilymag.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert