„Það lendir alltaf einhver í honum“

72 sögur fjölmiðlakvenna voru birtar í dag.
72 sögur fjölmiðlakvenna voru birtar í dag.

Konur í fjölmiðlum stigu í dag fram undir merkjum #fimmtavaldsins og sögðu meðal annars sögur sínar í tengslum við störf innan greinarinnar. Má þar lesa fjölmargar sögur um áreitni, óviðeigandi kynferðislegt tal, mismunun og kynferðislegt ofbeldi sem konurnar hafa orðið fyrir bæði af hendi samstarfsmanna og viðmælenda.

Núna varst það þú“

Í nokkrum sögum má lesa um þegar samstarfsmenn kvennanna hafi leitað á þær. Í einu tilvikinu lýsir kona því hvernig samstarfsmenn hennar hafi þurft að stoppa annan sem leitaði á hana og koma honum í leigubíl. „Eftir samfagnað eitt haustið fór stór hluti hópsins niður í bæ á skemmtistað. Þar leitaði ein stór fyrirmynd mín, giftur og miklu eldri, stanslaust á mig, sama hvað ég færði mig úr stað og forðaðist hann. Hann elti mig eins og bráð og hætti ekki fyrr en annar karl setti mig í hálfgert skjól og annar kom honum heim í leigubíl. Það sáu þetta allir og ég var reyndar ánægð með félaga mína þarna. Þegar hann var svo farinn sagði ein samstarfskona mín: „Það lendir alltaf einhver í honum í hvert sinn. Núna varst það þú“,“ segir í einni sögunni.

Viðreynsla í formi starfstilboðs

Þá segir önnur kona frá því að henni hafi tvisvar verið boðið starf við aðstæður þar sem áfengi var haft við hönd. „Því fylgdi að ég væri nú alveg frábær blaðamaður en svo kom fljótt í ljós að markmiðið með því að taka þetta upp við þessar aðstæður var viðreynsla. Í annað skiptið var viðkomandi meira en 20 árum eldri en ég en starfið var mjög spennandi.“

Þrábað menntaskólastelpu að setjast í fangið á sér

Ein kona segir frá samstarfsmanni sem hafi strokið henni og verið óþægilega nálægt henni. Eftir að konan gerði athugasemd við þetta athæfi hans þá hafi maðurinn verið með stöðugar aðfinnslur að öllu sem hún geri. „Samstarfskonur hafa kvartað undan símtölum á nóttunni og enginn gerir neitt,“ segir í frásögn konunnar. Heldur hún áfram og lýsir því hvernig maðurinn hafi áreitt nýráðnar konur á vinnustaðnum. „Stundum var hann að leysa af pródúsenta yfir sumartímann og þá var hann stöðugt að áreita skriftur og promter-stelpurnar. Einu sinni kom ég inn í útsendingarherbergi og þá var hann að þrábiðja stelpu um að setjast í fangið á sér af því að það væru engir stólar lausir. Stelpan var á menntaskólaaldri og að leysa af á promter. Henni var greinilega brugðið og reyndi að koma sér undan og inn í útsendingu. Ég varð brjáluð og sagði honum að láta stelpurnar í friði og að enginn hefði gaman að þessu. Hann varð pirraður á mér og sagði að ég hefði engan húmor. Hann var bara sko aðeins að djóka í stelpunum. Létta stemninguna á vaktinni.“

Algengt að gagnrýna vaxtarlag

Aðrar konur segja sögur af því að samstarfsmenn og jafnvel yfirmenn fjölmiðla hafi áreitt þær með því að gagnrýna vaxtarlag þeirra eða gera lítið annað en að tala um hversu sætar þær væru. Þá segja nokkrar frá óviðeigandi skilaboðum á Facebook og símtölum.

Pantaði eitt herbergi fyrir þau bæði í vinnuferð

Utanlandsferðir eru hluti af vinnu sumra fjölmiðlamanna og eru nokkrar sögurnar um atvik sem komu upp í slíkum ferðum. Ein segir frá því að samstarfsmaður hennar hafi séð um að bóka hótel. Í ljós hafi komið að hann bókaði bara eitt herbergi. Hún hafi ákveðið að sofa í litlum barnakojum sem voru í anddyri herbergisins, „en vonbrigði hans leyndu sér ekki. Alla ferðina var hann svo að gefa í skyn að við ættum nú bara að sofa bæði í rúminu og reyndi að hella mig fulla við hvert tækifæri. Ég gerði mér upp mikla þreytu og fór heim á undan honum en þurfti einu sinni segja honum að vera í sínu rúmi þegar hann kom heim. Síðar frétti ég að hann væri að vinna í því að koma með mér til útlanda í aðra vinnuferð. Þá fór ég á fund yfirmanna og sagði bara hell no að ég fari með honum út aftur og það var bara tekið gott og gilt.“

Önnur kona segist hafa farið í ferð og samstarfsmaður hennar hafi ekki hætt að tala um hversu fáránlegt það hafi verið af yfirmanninum að panta tvö hótelherbergi. „Eftir nokkrar svona athugasemdir snöggreiddist ég og sagði honum að þetta djók hans væri ógeðslega óviðeigandi í vinnuferð og bað hann að hætta þessum perrakommentum. Hann hélt sig á mottunni gagnvart mér eftir það en sögurnar eru ansi margar og hann gengur bara á línuna,“ segir í frásögn konunnar.

„Treður tungunni ofan í mig og segist vilja ríða mér

Í einu starfsmannapartí sem endaði á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur segist ein konan hafa orðið fyrir því að samstarfsmaður hennar, sem var á aldur við foreldra hennar, hafi komið og troðið tungunni ofan í kokið á henni. „Ég fékk sjokk og þáverandi kærasti varð náttúrulega alveg brjálaður og það sauð næstum upp úr en ég dró hann í burtu til að gera nú ekki meira mál úr þessu. Ég man hvað ég kveið því að hitta hann á vaktinni aftur. En viti menn, hann lét eins og ekkert væri.“ Sama kona segir frá því að hún hafi verið í öðru heimapartí og þar hafi eldri maður elt hana út og í lyftu þar sem hann hann stoppi lyftuna, „pinnar mig upp við vegg og treður tungunni ofan í mig og segist vilja ríða mér. Ég var logandi hrædd og gjörsamlega frosin og man ekki alveg hvernig það atvikaðist að lyftan fór aftur af stað og ég reif mig lausa og hljóp út.“

Í mörgum sögunum er einnig komið inn á mjög karlrembulega vinnustaðamenningu. Segir ein að oft hafi verið talað um að „einhverjir væri að fá það eða að frétt væri svo góð að það væri hægt að runka sér yfir henni, talað um að sleikja píkur eða sjúga belli til að ná frétt og annað í þeim dúr.“

Þá eru sögur um upptökumenn sem hafi tekið nærmyndir af brjóstum kvennanna og fleira óviðeigandi. Þá hafi ein kona gengið fram hjá samstarfsmanni sínum sem hafi horft á gróft klám á vinnutölvunni sinni. Hún hafi gagnrýnt þetta, en niðurstaðan var að blaðamaður á miðlinum sem heyrði útskýringu mannsins skrifaði  pistill í blað miðilsins um þessa „tilviljun“ mannsins að hafa óvart rekist inn á klámsíðuna.

Átti að þrífa klósettin þar sem hún var lægst launuð

Ein konan segir frá því að þegar hún hafi verið um tvítugt hafi yfirmaður hennar sagt að hún yrði að þrífa klósettið. Þegar hún hafi sagt að það væri ekki frekar í hennar verkahring en karlanna sem unnu á vinnustaðnum hafi hún fengið svarið að hún þyrfti að sjá um þrifin þar sem hún væri lægst launuð. Þegar konan benti á að einn karlkyns nemi hjá fyrirtækinu væri með lægri laun en hún hafi yfirmaðurinn strax hækkað laun nemans svo þau væru hærri en hjá henni. Daginn eftir sagði konan upp störfum.

Lesa má allar sögurnar í meðfylgjandi skjali hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka