Hjólar hringinn þrátt fyrir vetrarfæri

Petit á ferðinni á þjóðvegi 1 í vikunni. Hann segir …
Petit á ferðinni á þjóðvegi 1 í vikunni. Hann segir náttúruna ákaflega fagra í vetrarham sem vegi upp á móti kulda og vind. Ljósmynd/Jean-yves Petit

Flestum Íslendingum finnst nóg um á þessum árstíma að standa úti í kuldanum á morgnana að skafa af bílrúðunni eða koma sér út á strætóstoppistöð. Margir stunda þó ýmiskonar vetraríþróttir, en fæstir eru þó tilbúnir að ganga jafn langt og Frakkinn Jean-yves Petit sem nú er á tæplega tveggja mánaða hjólaferð umhverfis landið. Hann segir náttúrufegurðina mikla á þessum árstíma og þess virði að leggja svona vetrarferð á sig þrátt fyrir að vindur og kuldi taki aðeins á.

Petit er nú staddur í Borgarnesi en ætlar á morgun að hjóla í Hvalfjörð og mögulega yfir á Þingvelli þaðan sem stefnan er sett á Gullna hringinn áður en hann kemur til Reykjavíkur. Hann kom til landsins með Norrænu 20. nóvember, en þá tóku við honum fréttafyrirsagnir eins og þessi: „Óveður fram á laugardag.“ Var hann veðurtepptur á Seyðisfirði fyrstu fjóra dagana, en lagði svo af stað 25. nóvember.

Það dugar ekkert annað en tveir standarar fyrir hjólið, enda …
Það dugar ekkert annað en tveir standarar fyrir hjólið, enda er Petit með allt að 50 kíló af farangri á því. Ljósmynd/Jean-yves Petit

Tröllaskaginn hápunkturinn

Hann segir að frá fyrsta degi hafi ferðin tekið mikið á og verið erfið en hann hafi ótrauður haldið áfram. Þegar hann var svo upp á miðjum Möðrudalsöræfum hafi hann þurft að stoppa og taka rútuna til Akureyrar vegna veðurs. Hafi meðal annars margir Íslendingar rætt við hann um að erfitt gæti verið að komast alla leið til Akureyrar í þessu færi.

Frá Akureyri lá leiðin svo um Tröllaskaga, gegnum Ólafsfjörð og Siglufjörð áður en hann fór í gegnum Sauðárkrók og yfir Þverárfjall áleiðis að Blönduósi. Segir hann að Tröllaskagi hafi verið hápunktur ferðarinnar hingað til. „Svo fallegur, fjöllin, sjórinn og svo var fólkið svo gott,“ segir hann.

Petit gistir reglulega í tjaldi á ferð sinni. Eins og …
Petit gistir reglulega í tjaldi á ferð sinni. Eins og sjá má á myndinni er hjólið vel merkt með endurskinsmerkjum, enda ekki vanþörf á. Ljósmynd/Jean-yves Petit

Með tugi kílóa í farangur

Margir Íslendingar hafa undanfarin ár ferðast um á hjólum, hvort sem það er á svokölluðum götuhjólum án farangurs eða jafnvel á með einhvern farangur á hjólinu, meðal annars í ferðalögum á hálendinu. Þeir sem það hafa gert vita að þyngd farangursins skiptir gríðarlegu máli, en Petit segir að hann sé með samtals um 50 kíló af farangri á hjólinu. Algengur meðalferðahraði yfir daginn er því ekki mikið meiri en 8-9 kílómetrar á klukkustund og fer hann lengst 50-60 kílómetra á hverjum degi.

Þetta er ekki fyrsta skiptið sem hann kemur hingað til lands, en hann heimsótti landið fyrst sumarið 2014 þegar hann hjólaði hringinn og gott betur en það í 2 þúsund kílómetra hjólaferð. Svo kom hann árið eftir og fór 1500 kílómetra fram og til baka um Vestfirði. Þá hefur hann einnig unnið sem leiðsögumaður fyrir franska hópa frá héraðinu Bordeaux þar sem hann býr, en Íslendingar þekkja það líklegast mest fyrir mikla og góða vínrækt.

Dagarnir byrja oft í aðstæðum eins og þessum.
Dagarnir byrja oft í aðstæðum eins og þessum. Ljósmynd/Jean-yves Petit

Meiri virðing borin fyrir hjólafólki á veturna

Petit neitar því ekki að ferðin sé gríðarlega erfið og ekki fyrir hvern sem er. „En fegurðin vinnur það upp,“ svarar hann. Hann segir mikinn mun á viðhorfi Íslendinga til sín sem hjólreiðamanns um vegi landsins eftir því hvort það sé vetur eða sumar. Á sumrin séu gríðarlega margir á ferð og mismunandi hvernig honum sé tekið, en núna um veturinn sé mun meiri virðing borin fyrir þessum ferðamáta.

Það erfiðasta við að ferðast á hjóli um Ísland að vetri til er að sögn Petit vindurinn. „Þegar hann kemur á móti þér er þetta mjög erfitt,“ segir hann og bætir við að kuldinn geri þetta svo enn erfiðara. Hann tekur fram að hann hafi mjög mikla reynslu af því að ferðast á hjóli víða um heim og því reynist það að hjóla honum í raun ekki mjög erfið, en það séu ytri aðstæðurnar sem geri þetta að raunverulegri áskorun.

Framundan er svo Suðurlandið og að komast aftur á Seyðisfjörð, en Petit segir að hann ætli sér að reyna að klára ferðina fyrir 10. janúar.

Fyrstu dagarnir litu ekki vel út fyrir ferðatilhögun Petit.
Fyrstu dagarnir litu ekki vel út fyrir ferðatilhögun Petit. Mynd/Vegagerðin

 Fylgjast má með ferðum Petit á Facebook-síðu ferðarinnar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert