Velta erlendra greiðslukorta á Íslandi var um 188 milljarðar króna fyrstu átta mánuði ársins. Það er rúmlega 63% aukning frá 2015 og samsvarar 542 þúsund á hvern landsmann.
Vegna þessa er velta erlendra greiðslukorta orðin næstum jöfn veltu innlendra debetkorta. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir verslun í miðborg Reykjavíkur standa orðið og falla með erlendum ferðamönnum.
Hann segir ástæðu til bjartsýni fyrir hönd verslunar á Íslandi. Rætt sé um að Asíuflug geti hafist 2019. „Ef íslensk flugfélög hefja beint flug til Asíu 2019 munum við sjá meiri sprengju í þessum geira en hingað til. Margir Asíubúar hafa mikinn kaupmátt,“ segir Andrés um fyrirhugað Asíuflug í Morgunblaðinu í dag.