Varnarveggir við Miklubraut eru ekki viðurkenndur búnaður og gera þarf úrbætur þar á. Þetta er meðal þeirra athugasemda sem gerðar eru við öryggi vegfarenda við varnarvegginn í nýrri öryggisúttekt Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.
Í tilkynningu sem birt er á vef Vegagerðarinnar kemur fram að tvær vettvangsferðir hafi verið farnar á svæðið og sé markmiðið með þeim að gera ný umferðarmannvirki eins örugg og hagkvæmt sé. Bent hafi verið á það er framkvæmdin var enn á hönnunarstigi að „kanna þyrfti hvort hljóðvörn, grjótkörfuveggur á Klambratúni, tilheyrði viðurkenndum öryggisbúnaði.“
„Hönnunarteymi verkefnisins, sem samanstendur af fulltrúum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar ásamt ráðgjöfum, leit hins vegar svo á að við þessar aðstæður í borginni væru veggir utan öryggissvæðis götunnar og gerði því ekki breytingar á hönnuninni,“ segir í tilkynningunni. „Útafakstur á þessum kafla hefur verið fátíður, árin 1996-2016 var tvisvar ekið á ljósastaur og er annar útafakstur ekki skráður á tímabilinu.“
Hljóðvörnin teljist hins vegar innan öryggissvæðis samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og hafi sú athugasemd verið ítrekuð í síðustu skoðun. M.a. þurfi sérstaklega „að huga að ákeyrsluhættu við enda hljóðvarna. Uppsetning vegriðs fyrir framan hljóðvörn er ein þeirra lausna sem nefnd er til að mæta þessari ákeyrsluhættu en tekið er fram að vegrið feli í sér ákveðna hættu, aðeins eigi að setja vegrið upp þar sem hættulegra er að aka út af en að aka á vegriðið.“
Segir í tilkynningunni að hönnunarteymi verði falið að útfæra hvernig hægt sé að verja enda hljóðvarna með vegriðum og „að meta hvort ástæða sé til að verja grjótkörfuvegg víðar, m.a. með hliðsjón af jarðvegsfyllingu og gróðri sem á eftir að koma upp að veggnum á köflum. Við mat á útfærslu ákeyrsluvarna verði horft til nettari gerða vegriða sem taka mið af þeirri landslagshönnun og því borgarumhverfi sem þarna er.“
Þá hafi lækkun hámarkshraða á þessum kafla Miklubrautar verið mikið til umræðu síðustu árin, en rannsóknir sýni að með hraðalækkun dragi úr líkum á slysum og eins dragi úr alvarleika þeirra slysa sem verða.
„Í skýrslu starfshóps, sem samþykkt var í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur fyrr á árinu er lagt til að hraði á þessum kafla verði lækkaður úr 60 km/klst. í 50 km/klst. í samræmi við umferðaröryggisaðgerðir víða í erlendum borgum. Vegagerðin hefur ekki mælt með því við lögreglustjóra að hámarkshraði verði lækkaður eins og umhverfi Miklubrautar var. Vegagerðin mun endurskoða það mat m.t.t. þess umhverfis sem verið er að ganga frá með nýju framkvæmdinni.“