Launakröfur „fullkomlega óraunhæfar“

Frá fundi flugvirkja hjá ríkissáttasemjara fyrr í vikunni.
Frá fundi flugvirkja hjá ríkissáttasemjara fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert

„Kröfur flugvirkja eru fullkomlega óraunhæfar,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um kjaradeilu Flugvirkjafélags Íslands vegna Icelandair.

„Við erum búin að hittast í marga mánuði og það er búið að bjóða af hálfu samninganefndar Samtaka atvinnulífsins og Icelandair mjög sanngjarnar launahækkanir sem eru algjörlega í takt við það sem verið er að bjóða annars staðar,“ greinir Halldór frá og nefnir rammasamkomulag á vinnumarkaði þar sem miðað er við launahækkanir yfir lengra tímabil. Mjög sanngjarnar launahækkanir hafi verið boðnar út frá því.  

Hann segir útilokað hvað Samtök atvinnulífsins áhræri að einn hópur geti freistað þess að skera sig úr þegar kemur að kjarasamningum.

„Það lýsir sér í því að launakröfur þeirra eru margfeldi af því svigrúmi sem við höfum til hækkana.“

Halldór Benjamín Þorbergsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson.

Hóta verkfalli á viðkvæmasta tíma 

Halldór segir gott að enn sé verið að tala saman en næst verður fundað hjá ríkissáttasemjara klukkan 15.30 í dag. Hann bætir við að Samtök atvinnulífsins muni ekki kvika frá þeirri línu sem þau vinna eftir í samningum sínum fyrir fjölda hópa. „Yfirmarkmið okkar er að viðhalda stöðugleika og það á við hvort sem er um að tefla flugvirkja hjá Icelandair eða aðra hópa og önnur fyrirtæki.“

Hann segir vandann í stöðunni þann að flugvirkjarnir séu með yfirvofandi hótun um ótímabundið verkfall á viðkvæmasta tíma í aðdraganda jóla í því augnamiði að þvinga fram kauphækkanir sem séu langt umfram það svigrúm sem er til skiptanna.

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert