Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, segir það ekki koma til greina að setja lög á boðað verkfall flugvirkja sem starfa hjá Icelandair.
Ráðherrann hitti deiluaðila í gær til að fá upplýsingar um stöðuna og lýsti hann jafnframt yfir áhyggjum ríkisstjórnarinnar vegna deilunnar.
Hann segist hafa komið þeim sjónarmiðum á framfæri að engin áform væru uppi um að setja lög á deiluna. Hvatti hann menn til að finna ásættanlega leið til að semja, fyrir báða aðila.
Sigurður Ingi hitti einnig aðstoðarríkissáttasemjara í dag til að fá upplýsingar um stöðu málsins.
„Ég bað þá [deiluaðila] um að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að ná saman og forða því að verkfall skylli á með tilheyrandi afleiðingum fyrir þriðja aðila, fyrir utan annað tjón,“ segir hann.
Spurður segir hann að verkfallið myndi hafa talsverðar afleiðingar. „Þetta er alltaf vont en sérlega viðkvæmt á svona tíma þegar fólk vill gjarnan komast heim og vera með fjölskyldum sínum. Ég bað aðila um að vera meðvitaða um ábyrgð sína, sem þeir voru.“