Talið er að um 400 þúsund lítrar af vatni hafi sprautast úr brunahana sem brotnaði þegar próflaus ökumaður á allt of miklum hraða missti stjórn á bifreið sinni í Hafnarfirði í gær.
Tilkynnt var til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um umferðaróhapp við Hvaleyrarbraut klukkan 18:20 í gær. Ökumaðurinn, sem er 38 ára gamall, missti stjórn á bifreið sinni og ók á steyptan vegg og þaðan yfir akbrautina á brunahana og út fyrir veg þar sem bifreiðin stöðvaðist á girðingu.
Mikið af vatninu fór að bílaverkstæði þar nærri og urðu töluverðar skemmdir áður en tókst að stöðva vatnsflauminn.
Ökumaðurinn er grunaður um hraðakstur en hann hefur aldrei öðlast ökuréttindi og hefur ítrekað verið stöðvaður við akstur bifreiðar. Bifreiðin var flutt af vettvangi með dráttarbifreið, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Ökumaður sem lögreglan stöðvaði um miðnætti í Kópavogi er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna. Lögreglan stöðvaði síðan för ölvaðs ökumanns í miðborginni í nótt.