Hæstiréttur sakfellir tvo fyrir hatursorðræðu

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur dæmdi í dag tvo karlmenn til að greiða 100.000 krónur í sekt vegna skrifa þeirra í athugasemdakerfum fjölmiðla vegna ályktunar sem bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar hafði samþykkt og sneri að samstarfssamningi við Samtökin ´78 um hinsegin fræðslu. 

Þriðji maðurinn var sýknaður vegna sama máls. 

Allir voru mennirnir sýknaðir í héraði en tveimur mannanna er nú gert að greiða sekt. 

„Þvílíkt ógeð“

Annar mannanna sem dæmdur var til sektargreiðslu ritaði meðal annars eftirfarandi athugasemd við frétt tengda málinu:

„Við hlustendur útvarps Sögu kærum okkur ekki um neinar fjandans útskýringar A á þessari kynvillu. Þetta er ógeðslegt. Að innræta í börn hvernig kynvillingar eðla sig í rúminu. A getur þess vegna setið heima hjá sér heldur en að troða sér inn á útvarp Sögu. Þvílíkt ógeð.“

Troða kynvillu í saklaus börn

Hinn maðurinn sem dæmdur var til sektargreiðslu ritaði eftirfarandi athugasemd:

„Á nú að fara eyðileggja sakleysi barnanna að foreldrum forspurðum? Ég myndi flokka þetta undir barnanýð vera troða kynvillu í saklaus börn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vinsamlegast haldið saurugu hugsunum og löngunum ykkar frá börnunum mínum.“

Maðurinn var var sýknaður skrifaði þetta sem athugasemd við frétt: „Hlutlausa kynfræðslu á að veita í skólum en ALDREI réttlæta ónáttúrulega kynhegðan fyrir saklausum börnum og kalla það sem er óeðlilegt eðlilegt!!!“

Í niðurstöðu í máli mannanna tveggja sem voru dæmdir segir meðal annars að á löggjafanum hvíli ekki aðeins sú skylda að haga lögum á þann hátt að tjáningarfrelsi sé ekki skert í ríkara mæli en svigrúm stendur til eftir kröfum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. 

„Löggjafanum er einnig skylt að tryggja með lögum einkalífi manna friðhelgi, sbr. 1. mgr. 71. gr. hennar, og stuðla jafnframt að vernd þeirra, sem hætt er við að sæti vegna aðstæðna sinna eða sérkenna útbreiddu aðkasti eða andúð, og gæta þar með allsherjarreglu,“ segir í dómnum.

„Þegar horft er til þessara hagsmuna, sem meðal annars 233. gr. a. almennra hegningarlaga er sett til að vernda, verða þeir samkvæmt lýðræðishefðum og eftir heildstæðu mati á öllum atvikum málsins að vega þyngra en óheft frelsi ákærða til að tjá skoðanir sínar á þann hátt sem hann gerði. Er þá jafnframt tekið fullt tillit til þess að tjáningarfrelsi hans verði ekki skert í ríkara mæli en nauðsyn ber til.“

Fordómafullt en ekki hatursorðræða

Hvað varðar hinn sýknaða segir að ummæli hans um að ónáttúruleg og óeðlileg kynhegðun væri samkynhneigð. Einnig fólst í orðum hans tjáning á því að með kynfræðslu barna ætti ekki að láta í veðri vaka að samkynhneigð væri eðlileg. Með því hafi ákærði viðhaft orð sem telja má smánun í garð samkynhneigðra.

Þótt orðin hafi jafnframt borið með sér fordóma verður á hinn bóginn ekki litið fram hjá því að samkvæmt áðursögðu verður tjáning ekki felld undir verknaðarlýsingu 233. gr. a. almennra hegningarlaga nema telja megi hana fela í sér slíka óbeit, andúð, fyrirlitningu eða fordæmingu að flokka megi hana undir hatursorðræðu. Framangreind orð ákærða geta ekki talist slík að því skilyrði sé fullnægt,“ segir í dómi Hæstaréttar og því er hann sýknaður.

Sérálit Ólafs Barkar

Ólafur Börkur Þorvaldsson skilaði sératkvæði í málunum og sagði að ummælin væru innlegg mannanna í samfélagsumræðu og væru hluti af skoðanaskiptum á netinu þar sem „oft er vaðið á súðum og vart til þess fallin að veita skoðun ákærða brautargengi“. Fellst hann á að tilgangur ummælanna hafi verið sá að andmæla samþykkt stjórnvalds og ummælin viðbrögð við ályktun stjórnvalds í stað þess að ógna, smána, rógbera eða hæðast að ótilteknum hóp vegna kynhneigðar eða kynvitundar.

„Má hafa í huga í þessu sambandi að ummælunum var ekki þröngvað upp á fólk með öðrum hætti en þeim að þau máttu þeir lesa sem leituðu sérstaklega eftir almennum athugasemdum í dálki við frétt á netsíðu,“ segir Ólafur í sérálitinu.

„Samkvæmt framansögðu verður að líta á hin sannanlega niðrandi ummæli ákærða sem hluta af framlagi hans til almennrar og opinberrar umræðu um athafnir lýðræðislega kjörins stjórnvalds er vörðuðu almenning. Í ljósi þessa og alls framanritaðs, en þó einkum vegna þeirrar verndar sem veita verður umræðu um meðferð opinbers valds í lýðræðisþjóðfélagi, þó slík vernd geti ekki verið takmarkalaus, er ekki rétt að dæma ákærða sekan um refsivert brot samkvæmt 233. gr. a. almennra hegningarlaga,“ segir hann jafnframt.

Dómur mannsins sem var sýknaður.

Dómur.

Dómur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert