Bíða með ákvörðun um kostamat

Tæplega fimmtíu manns eru með lögheimili í Árneshreppi á Ströndum. …
Tæplega fimmtíu manns eru með lögheimili í Árneshreppi á Ströndum. Innan við þrjátíu eru þar með vetursetu. mbl.is/Golli

Hreppsnefnd Árneshrepps ákvað á fundi sínum í dag að fresta því að taka ákvörðun um hvort ráðist verður í kostamat á virkjun innan sveitarfélagsins annars vegar og stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis hins vegar. Tillöguna að kostamatinu setti Sigurður Gísli Pálmason,  aðaleigandi IKEA á Íslandi, fram í athugasemd sinni á skipulagstillögu vegna Hvalárvirkjunar nú í haust. Sigurður Gísli hefur boðist til að greiða fyrir matið sem yrði unnið að sérfræðingum. 

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir að tillaga Sigurðar Gísla um kostamatið verði tekin fyrir á fyrsta fundi hreppsnefndarinnar á nýju ári. Á þeim fundi verði fjallað um allar athugasemdir sem bárust vegna breytingartillagna á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. „Meirihluti hreppsnefndar vildi bíða með þetta og kynna sér málið betur,“ segir Eva. 

Hún segir hugmynd að kostamati þó hafa verið rædda töluvert á fundinum í dag. Ýmist sé talað um þjóðgarð eða verndarsvæði og hreppsnefndarmenn vilji átta sig betur á málinu áður en þeir taki ákvörðun um framhaldið. „Það eru ýmsar myndir sem eru til af svona löguðu og þess vegna ætlum við að skoða þetta betur og taka þetta fyrir í janúar.“

Hún segir að í þeirri vinnu sem framundan er verði sérfræðingar kallaðir til, m.a. skipulagsfulltrúi og lögfræðingar. 

Kostir og gallar virkjunar og verndunar metnir

Vest­ur­Verk, sem er í meiri­hluta­eigu HS Orku, áform­ar að reisa Hvalár­virkj­un í eyðifirðinum Ófeigs­firði í Árnes­hreppi. Það sem Sigurður Gísli leggur til að verði gert er að kostir og gallar bæði virkjunar og þjóðgarðs eða verndarsvæðis verði metnir. Niður­stöðuna yrði svo hægt að nýta til að taka upp­lýsta ákvörðun um fram­haldið á for­send­um heima­manna.

Telur Sigurður Gísli að slíkt mat, yrði það samþykkt, gæti tekið 3-4 mánuði. 

Hann sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að þjóðgarður gæti haft annað og meira hlut­verk en það eitt að vernda nátt­úr­una. Þannig yrði bú­seta inn­an hans og aðstæður skapaðar til rann­sókna og þró­un­ar at­vinnu­lífs. Slík svæði er þegar að finna víða um heim und­ir merkj­um Menn­ing­ar­mála­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna, UNESCO, þangað sem Sig­urður sæk­ir hug­mynd sína. Verk­efnið kall­ast „Man and the Bi­osph­ere“ eða Maður í líf­heimi.“ 

Ekki þyrfti að koma til eign­ar­náms lands við stofn­un vernd­ar­svæðis­ins og hefðu ein­hverj­ir land­eig­end­ur ekki áhuga á að vera með í verk­efn­inu væri þeim frjálst að standa utan þess. Frum­kvæði að stofn­setn­ing­unni þyrfti ekki að koma frá rík­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert