„Við vonum að það komi gott útspil í dag,“ segir Gunnar R. Jónsson, formaður samninganefndar flugvirkja um fund Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins klukkan 14 í dag vegna Icelandair.
Hann segir flugvirkja hafa átt von á meiru frá Samtökum atvinnulífsins á samningafundi sem var haldinn í gær og bíður eftir útspili frá viðsemjendum.
Fundurinn í gær var „frekar rólegur“, að sögn Gunnars og gerðist lítið sem ekkert. „Það var ósköp rólegt yfir viðsemjendum okkar,“ segir hann og nefnir að það hafi komið honum á óvart miðað við að boðað verkfall verður á sunnudaginn.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fara flugvirkjar fram á 20 prósenta launahækkun. Gunnar vill ekkert tjá sig um það og segir eingöngu að þeir fari fram á leiðréttingu.
Halldór Benjamín Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í samtali við mbl.is á miðvikudag að launakröfur flugvirkja væru fáránlegar og að þeim hafi verið boðnar mjög sanngjarnar launahækkanir.
Gunnar vísar þessum orðum hans á bug og segir þau varla svaraverð. „Hann er trúr sínu fyrrverandi félagi. Hann er nýhættur hjá fjármálasviði Icelandair og kominn til Samtaka atvinnulífsins og ég veit ekki hvort það smiti eitthvað hans umtal.“
Alls starfa 280 flugvirkjar hjá Icelandair og í heildina eru rúmlega 500 flugvirkjar í Flugvirkjafélagi Íslands.