Forstjóra Landspítala misboðið

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Sigurður Bogi Sævarsson

Í nýjum pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, segir hann ofbeldi gagnvart konum ólíðandi ósóma og smánarblett. Hann segir alls ekki koma á óvart að slíkt hafi viðgengist í heilbrigðisþjónustunni, enda sé þar samfélag líkt og á öðrum vinnustöðum.

Fyrr í dag sendu 627 konur sem starfa í heilbrigðisþjónustu frá sér yfirlýsingu þess efnis að taka þyrfti á kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun tafarlaust innan allra heilbrigðisstofnana landsins, auk þess sem yfirlýsingunni fylgdu 53 frásagnir af kynbundinni áreitni sem þær höfðu orðið fyrir í starfi. Áður höfðu konur í læknastétt sent frá sér svipaða yfirlýsingu.

„Mér er farið eins og mörgum kynbræðrum mínum sem er misboðið fyrir hönd þeirra sem fyrir þessu verða. Ég veit að það eru fleiri sem eiga eðlileg samskipti við samstarfskonur okkar og mér rennur blóðið til skyldunnar að gera það sem í mínu valdi stendur til að uppræta þessa hegðun. Umfangið og eðli vandamálsins segir mér að hér sé um menningartengt fyrirbæri að ræða sem við þurfum öll að taka höndum saman um að ráðast að,“ segir Páll í pistli sínum.

Hann segir Landspítala líta kynferðislega áreitni og ofbeldi af hálfu sjúklinga og starfsmanna alvarlegum augum, og að þróaðir hafi verið sérstakir skriflegir verkferlar í gæðahandbók sem vísi veginn við úrvinnslu mála.

„Ég hef skynjað í umræðunni að eitt meginvandamálið í þessum óeðlilegu samskiptum er það valdaójafnvægi sem iðulega er gerandanum í vil. Slíkt læsir þolandann inni í vondri stöðu þar sem hann á erfitt um vik að bregðast við. Þeir sem fyrir áreitni og ofbeldi verða þurfa að skynja að umhverfið styðji þá til að segja frá og tilkynna og þar eru yfirmenn í lykilstöðu til að ganga fram með góðu fordæmi.“

Þá sagði hann áreitni og ofbeldi innan spítalans hafa verið kannað með reglulegum hætti, en að #meto- byltingin hefði sett málið rækilega á dagskrá. Í næstu viku væri niðurstaðna að vænta úr örkönnun um óviðeigandi hegðun innan spítalans, sem muni vafalaust setja mark sitt á samskiptasáttmála Landspítala sem unnið hefur verið að undanfarið.

„Þar hljóta góð samskipti og virðing í samstarfi allra að vera í lykilhlutverki. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi getur ekki og á ekki að þrífast á Landspítala og ég treysti því að við tökum öll þátt í að útrýma þessari hegðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka