Fundum í kjaradeilum Flugvirkjafélags Íslands vegna Atlanta og Félags atvinnuflugmanna vegna Icelandair sem áttu að vera í þessari viku hefur verið frestað um óákveðinn tíma.
Ástæðan fyrir því er kjaradeila flugvirkja við Samtök atvinnulífsins vegna Icelandair en flugvirkjarnir hafa boðað verkfall næstkomandi sunnudag.
Að sögn Elísabetar S. Ólafsdóttur, skrifstofustjóra ríkissáttasemjara, vilja félögin sjá hvað kemur út úr þeirri kjaradeilu áður en viðræðunum verður haldið áfram.
Flugvirkjar hjá fleiri fyrirtækjum og stofnunum eru í kjaraviðræðum. Samningar flugvirkja við Flugfélagið Erni, WOW air og ríkið vegna Samgöngustofu losnuðu 31. október en þeim hefur ekki verið vísað til ríkissáttasemjara.
Alls starfa 280 flugvirkjar hjá Icelandair og í heildina eru rúmlega 500 flugvirkjar í Flugvirkjafélagi Íslands.
Samningur Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Icelandair rann út 30. september. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara 26. september og var fyrsti sáttafundur haldinn 2. október.
Alls eru á milli 800 til 900 virkir félagar í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna. Þar af störfuðu 530 hjá Icelandair í sumar.