Hvar eru skattalækkanir?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði hvar skattar yrðu lækkaðir í fjárlagafrumvarpinu. Hann óskaði jafnframt eftir að fá að vita hvar áherslur Sjálfstæðisflokks væri að finna í fjárlagafrumvarpinu sem hann sagði vera meira litað af áherslum Vinstri grænna sem stýrðu för.  

Sigmundur spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, jafnframt út í ummæli formannsins frá árinu 2016 um lækkun tryggingagjalds sem hann hafði boðað. 

Bjarni kom í pontu og svaraði því til að um mitt árið 2016 hefði tryggingagjaldið verið lækkað um 0,5%. Hann sagði mikilvægt að lækka það ekki úr öllu samhengi við annað í samfélaginu. Bjarni ítrekaði að álögur hefðu verið lækkaðar en þær verða að samræmast öðru til að tryggja stöðugleika.

Um áherslur Sjálfstæðisflokksins benti Bjarni meðal annars á utanríkismálin. Á móti óskaði hann eftir að fá að sjá stefnu frá Miðflokknum sem hefði ekki komið með neina í kosningunum. 

„Þetta er upplifun sem hann [Sigmundur] verður að lifa með. Stefna míns flokks umfram allt annað er að bæta lífskjör hins vinnandi manns. Við erum að skapa svigrúm með því að styrkja innviðina,“ segir Bjarni þegar hann ræddi mark Sjálfstæðisflokks í fjárlagafrumvarpinu.  

Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar. Skjáskot af vef Alþingis

Vill meira í háskólana og fyrir barnafólk

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi frumvarpið og sagði meðal annars litlu fjármagni varið til háskólanna sem og lítið gert fyrir barnafólk og vísaði til óbreyttra barnabóta og fæðingarorlofs.

Ágúst er ekki sammála Sigmundi Davíð því hann sagðist varla sjá mark Vinstri grænna í fjárlagafrumvarpinu einkum er varðaði mennta- og heilbrigðismál eins og VG hefði boðað í kosningunum. Hann sagðist sjá meiri áhrif Sjálfstæðisflokks og vísaði til að þess að fjárlagafrumvarpið væri ekki ósvipað því síðasta. 

Hann gagnrýndi einnig framlög til helbrigðismála sem hann sagði ekki nægjanleg. Í því samhengi vísaði hann til ummæla forstjóra Landspítalans sem sagði að þetta dygði ekki til að halda sjó. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert