Klippt var á borða og mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krísuvíkurvegar formlega tekin í notkun skömmu eftir hádegi í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri opnuðu gatnamótin formlega í dag með því að klippa á borða ásamt Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Guðlaugu Kristjánsdóttur og Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarfulltrúum í Hafnarfirði og forráðamönnum verktakanna, Andrési Sigurðssyni frá Loftorku ehf. og Dofra Eysteinssyni frá Suðurverki hf.
Um Reykjanesbraut á þessum stað fara 15 þúsund bílar á dag og um 6 þúsund um Krýsuvíkurveg eða um 21 þúsund bílar daglega í allt og er umferðaröryggi því aukið. Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sagði fyrr í haust að fækka þyrfti slysum á veginum í gegnum bæinn.
„Við erum með tvö slysamestu hringtorg á höfuðborgarsvæðinu auk vegarkaflans frá Kaldárselsvegi að mislægu gatnamótunum þar sem nú standa yfir framkvæmdir þar sem er bara einn vegur með akreinar í sitt hvora átt. Þarna erum við með um 28 slys á hvern kílómetra á ári. Reykjanesbrautin klýfur bæinn í sundur og stór hluti af umferðinni eru bæjarbúar í Hafnarfirði,“ sagði Haraldur.
Verkið felst í gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar við Krýsuvíkurveg. Til framkvæmdanna teljast einnig breytingar á Krýsuvíkurvegi, gerð tengivegar að Suðurbraut og tengivegar að Selhellu. Einnig er innifalin gerð göngu- og hjólastígs meðfram Suðurbrautartengingu og hraðatakmarkandi aðgerðir á Suðurbraut. Þá er gerð hljóðmana við Reykjanesbraut í Hafnarfirði hluti verksins. Auk þess eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja og landmótun.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ýmissi frágangsvinnu enn ólokið en henni verður lokið á vormánuðum.