„Það er töluverður fjöldi sem hefur verið að hafa samband, enda vorum við að upplýsa alla okkar farþega um stöðuna í dag, um yfirvofandi verkfall,“ segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, forstöðumaður notenda- og þjónustuupplifunar hjá Icelandair. Flugvirkjar Icelandair hafa boðað verkfall sem hefst klukkan sex að morgni næstkomandi sunnudags, 17. desember, náist samningar ekki fyrir þann tíma.
Ef af verkfalli verður mun það hafa áhrif á um tíu þúsund farþega á hverjum degi, en tugir véla Icelandair fljúga til á frá landinu dag hvern og segir Ingibjörg þær flestar vera fullar. Farþegar fengu í dag bæði sms-skilaboð og tölvupóst um stöðu mála og segir hún marga hafa haft samband í kjölfarið.
„Fólk er eðlilega áhyggjufullt og í uppnámi. Þetta er erfiður tími, það eru margir að fara að hitta ættingja og vini í útlöndum. Við erum með mikið af börnum sem ferðast ein. Börn eru að fara ein á milli foreldra sem eru kannski ekki búin að hitta þau lengi. Við erum með fólk er að fara í áframhaldandi flug. Við erum með níræð hjón sem eru að fara í siglingu, búin að skipuleggja hana í heilt ár og sonur þeirra að fara með. Það er verið að stofna þessu í hættu. Það eru jólin og tilfinningarnar eru miklar.“ Ingibjörg segir áhyggjur fólks því bæði tilfinningalegar og fjárhagslegar, enda margir búnir að eyða töluverðum fjárhæðum í ferðalög yfir hátíðarnar.
Ingibjörg segir fólk þó ekki mikið vera að spyrja út í hugsanlegar bætur ef af verkfalli verður, það sé fyrst og fremst að hugsa um flugið sitt. Flestar spurningarnar snúi að því hvort það verði flogið eða ekki, sem er spurning sem í raun er ekki hægt að svara að svo stöddu. Ef af verkfalli verður er óljóst hvort allar ferðir Icelandair til og frá landinu verði felldar niður, að sögn Ingibjargar. „Við reynum að gefa svör og reynum að vinna þetta dag frá degi. Einu svörin sem við höfum núna eru að næstu upplýsinga er að vænta á morgun.“