U-beygja frá ráðuneytinu um samning sjúkrabíla

Samningur um rekstur sjúkrabíla er í gildi milli Sjúkratrygginga Íslands …
Samningur um rekstur sjúkrabíla er í gildi milli Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvö ár eru frá því samningur um endurnýjun og rekstur sjúkrabíla rann út. Á meðan hafa nýir sjúkrabílar ekki verið boðnir út. Margir sjúkrabílar eru því orðnir gamlir og mikið eknir. Sjúkratryggingar Íslands, fyrir hönd ríkisins, hafa séð um að semja við Rauða krossinn um endurnýjun og rekstur sjúkrabíla en sjúkrabílar eru jafnframt í eigu hans. Frá því samningurinn rann út hefur ákvæði í samningnum verið nýtt sem kveður á um að starfað sé eftir honum í einn mánuð í senn meðan báðir aðilar samþykkja.

„Fyrir rúmu ári síðan var nýr samningur í lokayfirlestri en þá kom u-beygja frá velferðarráðuneytinu um að bílarnir skyldu vera í eigu ríkisins. Þeir eru og hafa verið í eigu sjúkrabílasjóðs Rauða krossins. Staðan er sú að ekki er komin lausn í það mál. Þarna er komin ákveðin flækja í málið sem þarf fyrst að leysa,” segir Guðlaug Björnsdóttir, sem sér um samningagerð fyrir Sjúkratryggingar Íslands, og vísar málinu til velferðarráðuneytisins. 

Hún bendir á að ef eignarhaldið á að vera ríkisins þá þurfi fyrst að gera upp við Rauða krossinn. Sjúkratryggingar hafa ítrekað ýtt á eftir málinu og kallað eftir frekari svörum frá ráðuneytinu. 

Það er ljóst að talsverð bið verður áfram eftir nýjum sjúkrabílum því útboðsferlið tekur að minnsta kosti níu mánuði, að sögn Guðlaugar sem tekur fram að SÍ eru og hafa verið meðvituð um nauðsyn þess að nýtt útboð á sjúkrabílunum fari fram sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert