Algjör kvennasprengja

Ísold Uggadóttir og Krístín Þóra Haraldsdóttir.
Ísold Uggadóttir og Krístín Þóra Haraldsdóttir. Haraldur Jónasson / Hari

Eitt stærsta tæki­færið fyr­ir er­lenda mynd til að fá at­hygli og dreif­ingu vest­an­hafs er kvik­mynda­hátíðin Sund­ance í Banda­ríkj­un­um. Íslensk mynd hef­ur aðeins einu sinni áður verið val­in í aðal­keppni hátíðar­inn­ar en ný­lega bár­ust tíðindi af því að kvik­mynd Ísold­ar Ugga­dótt­ur, Andið eðli­lega, sé önn­ur í sögu ís­lenskra kvik­mynda til að hljóta slíka til­nefn­ingu.

Ísold hef­ur áður gert nokkr­ar stutt­mynd­ir, ein þeirra hef­ur meðal ann­ars verið til­nefnd til Sund­ance-verðlauna en Ísold viður­kenn­ir að þessi viður­kenn­ing sé tals­vert stærri þar sem um kvik­mynd í fullri lengd sé að ræða. Með aðal­hlut­verk fara leik­kon­urn­ar Krist­ín Þóra Har­alds­dótt­ir og Babetida Sa­djo. Krist­ín Þóra og Ísold sett­ust niður með blaðamanni yfir kaffi­bolla og svöruðu því fyrst hvernig til­finn­ing það væri að vera til­nefnd­ur.

Hugsuðuð þið aldrei; þetta er hrika­lega góð mynd, hún á sko al­veg mögu­leika á að kom­ast á Sund­ance?

Ísold: „Maður nátt­úr­lega von­ar en aðeins 12 mynd­ir kom­ast áfram af mörg þúsund sem sækja um. Eft­ir að ég komst með stutt­mynd­ina Góða gesti á hátíðina 2007, sem var mik­ill sig­ur, hugsaði ég hversu frá­bært það yrði að kom­ast að með mynd í fullri lengd, en bjóst kannski ekki við að draum­ur­inn rætt­ist.“

Krist­ín Þóra: „Þetta er stór­kost­leg til­finn­ing og svo­lítið súr­realísk líka. Ég er ný í kvik­mynda­heim­in­um, er búin að vera mikið í leik­hús­inu en Andið eðli­lega er fyrsta kvik­mynd­in sem ég leik í. Ég er því svo­lítið mikið búin að vera að spyrja Ísold: „Og hvað? Hvað svo? Hvernig virk­ar þetta?“  Ég man að þegar ég las hand­ritið fyrst táraðist ég og fann hvað mig langaði til að þessi saga fengi að heyr­ast sem víðast. Ekki síst þess vegna er al­veg geggjað að fá þessa viður­kenn­ingu.“

Hvað þýðingu hef­ur það fyr­ir kvik­mynd að kom­ast á Sund­ance?

Ísold: Mynd­in fær mun meiri at­hygli en hún hefði nokk­urn tím­ann ann­ars fengið, sér­stak­lega frá banda­rísku press­unni. Þetta er tæki­færi til að koma list sinni á fram­færi en einnig markaður fyr­ir mynd­irn­ar. Eitt af stóru mark­miðum kvik­mynda­gerðarfólks er að bíó­mynd­irn­ar kom­ist í bíó­hús því kvik­mynd­ir eru auðvitað líka menn­ingar­út­flutn­ing­ur. Mynd­ir sem fara á Sund­ance eiga miklu meiri mögu­leika á slíku en þarna er sam­an­komið fólk sem er að velja titla sem það sér fyr­ir sér að muni ganga vel í bíó.“

Segja má að Andið eðli­lega sé al­gjör kvenna­sprengja. Kona skrifaði hand­ritið, leik­stýrði, sá um kvik­mynda­tök­ur, var fram­kvæmda­stjóri, voru aðstoðarleik­stjór­ar, kona valdi í hlut­verk, kon­ur leika tvö aðal­hlut­verk­in, kona sá um leik­mynd, bún­inga, gervi og meðfram­leiðend­ur voru kon­ur. Þannig mætti enda­laust áfram telja.

Var þetta meðvituð ákvörðun að hafa kon­ur á nær öll­um póst­um?

Ísold: „Já og nei. Þegar við fór­um að ráða fólk í vinnu leið mér aldrei öðru­vísi en við vær­um að ráða hæf­asta fólkið sem stóð okk­ur til boða hverju sinni, og það var svo­lítið til­vilj­ana­kennt að það voru kon­ur. Við fór­um ekki út og leituðum sér­stak­lega uppi kon­ur til að vera meðfram­leiðend­ur en vissu­lega höfðaði efniviður­inn til kvenna og þær leituðu til okk­ar. Fyrsti meðfram­leiðand­inn var þannig sænsk kona sem heyrði okk­ur kynna verkið á fram­leiðslu­messu í Nor­egi og varð strax mjög hrif­in. Hvort ástæðan var sú að efniviður­inn er svo­lítið kven­læg­ur veit ég ekki. Ég viður­kenni þó að ég var með það bak við eyrað að mig langaði að vinna með kvik­mynda­töku­mann­eskju sem væri kona. En ég hefði skoðað allt.“

Er öðru­vísi að vera sam­an svona marg­ar kon­ur?

Krist­ín: „Þetta er aðeins öðru­vísi orka jú en ég hugsaði ekki mikið út í það hrein­lega fyrr en eft­ir á, hvað það væri töff að það skyldu vera svona marg­ar kon­ur sam­an­komn­ar í verk­efn­inu. Það var eig­in­lega frek­ar að maður hugsaði: Af hverju er þetta ekki oft­ar svona?“

Ísold: „Í kvik­mynda­gerð er svo rosa­lega mikið álag, hver dag­ur er pakkaður og press­an þannig að maður hef­ur eig­in­lega ekki tíma til að staldra við og átta sig á sér­stöðunni eða róm­an­tík­inni. Við vor­um úti í öll­um veðrum, með börn og dýr og mörg tungu­mál á setti, á venju­leg­um degi gat heyrst ís­lenska, enska, sænska, pólska og franska á tökustað. Creole og ar­ab­íska jafn­vel. Þetta var því mik­il áskor­un og tvö­föld leik­stjórn oft þegar gefa þurfti fyr­ir­mæli bæði á ensku og ís­lensku.“

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnu­dags­blaðs Morg­un­blaðsins.

40 manns biðu eft­ir ketti

Andið eðli­lega fjall­ar um hæl­is­leit­and­ann Adja frá Gín­eu-Bis­sá sem belg­íska leik­kon­an Babetida Sa­djo leik­ur og hvernig ör­lög henn­ar flétt­ast sam­an við ör­lög ís­lenskr­ar konu, Láru, sem Krist­ín Þóra leik­ur. Leiðir þeirra liggja sam­an við vega­bréfa­skoðun á Kefla­vík­ur­flug­velli þar sem Adja er stöðvuð í vega­bréfa­eft­ir­liti af Láru, sem hef­ur nýhafið störf á Kefla­vík­ur­flug­velli. Þær tengj­ast óvænt­um bönd­um en með stórt hlut­verk fer líka Pat­rik Nökkvi Pét­urs­son, sem leik­ur ung­an son Láru. Mynd­in var tek­in upp á Suður­nesj­um og var verk­efnið gíf­ur­lega flókið í af­leitu veðri þar sem stund­um var ekki stætt úti.

Vissuð þið að þetta yrði flókið?

Ísold: „Ég held ég hafi ekki áttað mig á því hversu flókið þetta yrði, sem bet­ur fer. Þegar ég var að skrifa hand­ritið hugsaði ég með mér að þetta væri nú frek­ar ein­falt í vinnslu; tvær kon­ur, strák­ur og kött­ur, ekk­ert mál!“

Krist­ín: „Ein­hvern tím­an heyrði ég að  það væri miklu erfiðara að leika með börn­um í sen­um, og svo enn erfiðara þegar dýr bæt­ast við, þarna vor­um við með bæði. Ekki það, það var ótrú­leg gæfa hvað Pat­rik er frá­bær, það var eins og að leika með at­vinnu­mann­eskju. En það var stórfurðuleg upp­lif­un að geta ekki haldið áfram með tök­ur því kött­ur­inn var ekki til­bú­inn. Vildi ekki koma und­an sæt­inu í bíln­um og maður beið í skítak­ulda eft­ir þessu krútti.“

Ísold: „Stund­um voru 40 manns að bíða eft­ir því að kött­ur­inn færi milli staða a og b sem er dýrt spaug. Pat­rik var bara átta ára þegar við tók­um mynd­ina upp en hann var ótrú­lega fær og mætti alltaf með text­ann á hreinu. Hann minnti okk­ur líka á að ákveðnir leik­mun­ir yrðu að vera með næstu senu því þeir hefðu verið í þeirri fyrri.“

Krist­ín Þóra: „Hann sagði einu sinni við mig; Finnst þér leiðin­legt að bíða? Ég svaraði að já, stund­um væri það leiðin­legt. Hann svaraði að bragði: „Já, en það er bara hluti af því að vera leik­ari, Krist­ín.“

Viðtalið má lesa í heils inni í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins.

v

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert