Algjör kvennasprengja

Ísold Uggadóttir og Krístín Þóra Haraldsdóttir.
Ísold Uggadóttir og Krístín Þóra Haraldsdóttir. Haraldur Jónasson / Hari

Eitt stærsta tækifærið fyrir erlenda mynd til að fá athygli og dreifingu vestanhafs er kvikmyndahátíðin Sundance í Bandaríkjunum. Íslensk mynd hefur aðeins einu sinni áður verið valin í aðalkeppni hátíðarinnar en nýlega bárust tíðindi af því að kvikmynd Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega, sé önnur í sögu íslenskra kvikmynda til að hljóta slíka tilnefningu.

Ísold hefur áður gert nokkrar stuttmyndir, ein þeirra hefur meðal annars verið tilnefnd til Sundance-verðlauna en Ísold viðurkennir að þessi viðurkenning sé talsvert stærri þar sem um kvikmynd í fullri lengd sé að ræða. Með aðalhlutverk fara leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo. Kristín Þóra og Ísold settust niður með blaðamanni yfir kaffibolla og svöruðu því fyrst hvernig tilfinning það væri að vera tilnefndur.

Hugsuðuð þið aldrei; þetta er hrikalega góð mynd, hún á sko alveg möguleika á að komast á Sundance?

Ísold: „Maður náttúrlega vonar en aðeins 12 myndir komast áfram af mörg þúsund sem sækja um. Eftir að ég komst með stuttmyndina Góða gesti á hátíðina 2007, sem var mikill sigur, hugsaði ég hversu frábært það yrði að komast að með mynd í fullri lengd, en bjóst kannski ekki við að draumurinn rættist.“

Kristín Þóra: „Þetta er stórkostleg tilfinning og svolítið súrrealísk líka. Ég er ný í kvikmyndaheiminum, er búin að vera mikið í leikhúsinu en Andið eðlilega er fyrsta kvikmyndin sem ég leik í. Ég er því svolítið mikið búin að vera að spyrja Ísold: „Og hvað? Hvað svo? Hvernig virkar þetta?“  Ég man að þegar ég las handritið fyrst táraðist ég og fann hvað mig langaði til að þessi saga fengi að heyrast sem víðast. Ekki síst þess vegna er alveg geggjað að fá þessa viðurkenningu.“

Hvað þýðingu hefur það fyrir kvikmynd að komast á Sundance?

Ísold: Myndin fær mun meiri athygli en hún hefði nokkurn tímann annars fengið, sérstaklega frá bandarísku pressunni. Þetta er tækifæri til að koma list sinni á framfæri en einnig markaður fyrir myndirnar. Eitt af stóru markmiðum kvikmyndagerðarfólks er að bíómyndirnar komist í bíóhús því kvikmyndir eru auðvitað líka menningarútflutningur. Myndir sem fara á Sundance eiga miklu meiri möguleika á slíku en þarna er samankomið fólk sem er að velja titla sem það sér fyrir sér að muni ganga vel í bíó.“

Segja má að Andið eðlilega sé algjör kvennasprengja. Kona skrifaði handritið, leikstýrði, sá um kvikmyndatökur, var framkvæmdastjóri, voru aðstoðarleikstjórar, kona valdi í hlutverk, konur leika tvö aðalhlutverkin, kona sá um leikmynd, búninga, gervi og meðframleiðendur voru konur. Þannig mætti endalaust áfram telja.

Var þetta meðvituð ákvörðun að hafa konur á nær öllum póstum?

Ísold: „Já og nei. Þegar við fórum að ráða fólk í vinnu leið mér aldrei öðruvísi en við værum að ráða hæfasta fólkið sem stóð okkur til boða hverju sinni, og það var svolítið tilviljanakennt að það voru konur. Við fórum ekki út og leituðum sérstaklega uppi konur til að vera meðframleiðendur en vissulega höfðaði efniviðurinn til kvenna og þær leituðu til okkar. Fyrsti meðframleiðandinn var þannig sænsk kona sem heyrði okkur kynna verkið á framleiðslumessu í Noregi og varð strax mjög hrifin. Hvort ástæðan var sú að efniviðurinn er svolítið kvenlægur veit ég ekki. Ég viðurkenni þó að ég var með það bak við eyrað að mig langaði að vinna með kvikmyndatökumanneskju sem væri kona. En ég hefði skoðað allt.“

Er öðruvísi að vera saman svona margar konur?

Kristín: „Þetta er aðeins öðruvísi orka jú en ég hugsaði ekki mikið út í það hreinlega fyrr en eftir á, hvað það væri töff að það skyldu vera svona margar konur samankomnar í verkefninu. Það var eiginlega frekar að maður hugsaði: Af hverju er þetta ekki oftar svona?“

Ísold: „Í kvikmyndagerð er svo rosalega mikið álag, hver dagur er pakkaður og pressan þannig að maður hefur eiginlega ekki tíma til að staldra við og átta sig á sérstöðunni eða rómantíkinni. Við vorum úti í öllum veðrum, með börn og dýr og mörg tungumál á setti, á venjulegum degi gat heyrst íslenska, enska, sænska, pólska og franska á tökustað. Creole og arabíska jafnvel. Þetta var því mikil áskorun og tvöföld leikstjórn oft þegar gefa þurfti fyrirmæli bæði á ensku og íslensku.“

Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

40 manns biðu eftir ketti

Andið eðlilega fjallar um hælisleitandann Adja frá Gíneu-Bissá sem belgíska leikkonan Babetida Sadjo leikur og hvernig örlög hennar fléttast saman við örlög íslenskrar konu, Láru, sem Kristín Þóra leikur. Leiðir þeirra liggja saman við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli þar sem Adja er stöðvuð í vegabréfaeftirliti af Láru, sem hefur nýhafið störf á Keflavíkurflugvelli. Þær tengjast óvæntum böndum en með stórt hlutverk fer líka Patrik Nökkvi Pétursson, sem leikur ungan son Láru. Myndin var tekin upp á Suðurnesjum og var verkefnið gífurlega flókið í afleitu veðri þar sem stundum var ekki stætt úti.

Vissuð þið að þetta yrði flókið?

Ísold: „Ég held ég hafi ekki áttað mig á því hversu flókið þetta yrði, sem betur fer. Þegar ég var að skrifa handritið hugsaði ég með mér að þetta væri nú frekar einfalt í vinnslu; tvær konur, strákur og köttur, ekkert mál!“

Kristín: „Einhvern tíman heyrði ég að  það væri miklu erfiðara að leika með börnum í senum, og svo enn erfiðara þegar dýr bætast við, þarna vorum við með bæði. Ekki það, það var ótrúleg gæfa hvað Patrik er frábær, það var eins og að leika með atvinnumanneskju. En það var stórfurðuleg upplifun að geta ekki haldið áfram með tökur því kötturinn var ekki tilbúinn. Vildi ekki koma undan sætinu í bílnum og maður beið í skítakulda eftir þessu krútti.“

Ísold: „Stundum voru 40 manns að bíða eftir því að kötturinn færi milli staða a og b sem er dýrt spaug. Patrik var bara átta ára þegar við tókum myndina upp en hann var ótrúlega fær og mætti alltaf með textann á hreinu. Hann minnti okkur líka á að ákveðnir leikmunir yrðu að vera með næstu senu því þeir hefðu verið í þeirri fyrri.“

Kristín Þóra: „Hann sagði einu sinni við mig; Finnst þér leiðinlegt að bíða? Ég svaraði að já, stundum væri það leiðinlegt. Hann svaraði að bragði: „Já, en það er bara hluti af því að vera leikari, Kristín.“

Viðtalið má lesa í heils inni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

v

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka