Ógnvekjandi hvað Trump er ófyrirsjáanlegur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

„Að mörgu leyti stöndum við öll á öndinni. Við höfum verið að horfa á þetta óbærilega ástand áratugum saman og það er ofsalega dramatískt í alþjóðapólitíkinni hvað eitt útspil Bandaríkjaforseta getur breytt heimsmyndinni snöggt.“ Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Var hún gestur þáttarins ásamt Loga Einarssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, Fanneyju Birnu Jónsdóttur, umsjónarmanni Silfursins og Silju Báru Ómarsdóttur alþjóðastjórnmálafræðingi. Þau ræddu um stöðu Trump og nýjasta útspil hans, að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael. Vísar Svandís til þess að Trump hafi með yfirlýsingunni gert eldfimt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs enn eldfimara og slegið Bandaríkin út af borðinu sem sáttasemjara í friðarviðræðum Palestínumanna og Ísraela.

Svandís sagði ógnvekjandi að fylgjast með Trump og áhrifunum sem eitt útspil gæti haft. „Það er það sem við erum að sjá núna með þessa ógnvekjandi stöðu, með Donald Trump. Hann er ekkert venjulegur forseti, af því það er líka ógnvekjandi að upplifa hvað hann er ófyrirsjáanlegur og í raun og veru laus við það að vera í jafnvægi. Maður upplifir það ítrekað.“

Svandís sagði áhugavert að velta fyrir  sér stöðu Bandaríkjanna í þessu samhengi. Það hefði verið partur af sjálfsmynd þeirra í gegnum tíðina að tefla sér fram sem trúverðugu ríki á alþjóðavettvangi. Vera í forystu um ýmis mál.

„Þarna verður ofsalegt bakslag í þessu. Maður veltir fyrir sér hverskonar viðmælandi Bandaríkjaforseti er orðinn yfir höfuð við borðið, hvort sem við erum að tala um Sameinuðu þjóðirnar eða á alþjóðavettvangi almennt, þegar trúverðugleikinn raun og veru tapast með svona ítrekuðum yfirlýsingum.“

Svandís sagði hugsanlegt að það væri að molna undan Trump heima fyrir og þess vegna þyrfti hann á svona útspili að halda til að treysta sér bakland. „Kannski þá með ófyrirséðum útgjöldum hinu megin, að því er varðar samtalið við alþjóðasamfélagið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert