Reykjavíkurborg hefur gert samning við Faxaflóahafnir um kaup á 76 þúsund fermetra lóð í Sævarhöfða við Elliðaárvog fyrir 1.098 milljónir króna. Björgun hefur verið með starfsemi á lóðinni í áratugi en fyrirtækið mun víkja þaðan.
Þarna mun á næstu árum rísa íbúðarbyggð, að hluta til á landfyllingum. Verður byggðin vestasti hluti Bryggjuhverfisins, sem hefur verið að byggjast hratt upp síðustu misserin. Gert er ráð fyrir allt að 850 nýjum íbúðum auk þjónustustarfsemi.
Samningurinn var lagður fyrir borgarráð síðastliðinn fimmtudag en fer til endanlegrar afgreiðslu í borgarstjórn. Samkvæmt honum verða greiðslur þrjár, allar á árinu 2018. Jafnframt er gert ráð fyrir að tekjur vegna lóðasölu komi á móti kaupum á síðari hluta næsta árs.
Í greinargerð kemur fram að um langt skeið hafi legið fyrir að notkun svæðisins sé að breytast frá því að vera hafntengd starfsemi yfir í íbúðarbyggð. Fyrir liggur rammaskipulag um svæðið og unnið er að lokafrágangi deiliskipulags fyrir auglýsingu. Umhverfismat fyrir landfyllingu liggur fyrir ásamt framkvæmdaleyfi og eru framkvæmdir við fyllingargerðina hafnar af hálfu Björgunar samkvæmt verksamningi. Björgun mun afhenda lóðina í áföngum og verður síðasti hlutinn afhentur 1. júní 2019.
Greinin í heild sinni er birt í Morgunblaðinu