„Við hörmum þá umræðu sem fram hefur farið undanfarna daga um störf okkar,“ segir í yfirlýsingu frá jólagjafaráði jólasveinanna sem send var á fjölmiðla í morgun. Jólagjafaráð er skipað fulltrúum jólasveinanna og sendir frá sér hugmyndir að gjöfum í skóinn fyrir hver jól.
Töluverðrar óánægju hefur gætt með störf ráðsins fyrir þessi jól. „Það er ekki hlaupið að því að spá fyrir hvað slær í gegn,“ segir ennfremur í tilkynningunni. „Hver hefði til dæmis spáð því að „fidget spinner“ yrði svona vinsæll?“
Athygli hefur vakið að jólasveinninn Askasleikir hefur virt tillögur jólagjafaráðs að vettugi. Þess í stað festi hann kaup á Sönnum gjöfum UNICEF eins og svo margir bræður hans og gaf í skóinn í nótt.
Mbl.is heldur samstarfi sínu við jólasveinana áfram og mun birta nýtt myndband í jóladagatali UNICEF á hverjum degi fram að jólum. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, berst fyrir réttindum allra barna á heimsvísu. Hægt er að kaupa gjafir sem bjarga lífi barna hér, til dæmis jarðhnetumaukog bólusetningar gegn mænusótt.