Til minnkunar að vara við launahækkunum

Mikill mannfjöldi er á Keflavíkurflugvelli.
Mikill mannfjöldi er á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Víkurfréttir

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands segir hjákátlegt að fylgjast með ráðherrum ríkisstjórnarinnar og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins vara við því að flugvirkjar fái 20 prósenta launahækkun, því þá muni allt fara á hliðina. „Það er ekki langt síðan kjararáð úrskurðaði að alþingismenn og fleiri hópar í efsta lagi þjóðarinnar skyldu hækka um 45% og það á einu bretti, á einum degi, sumir þeirra fengu launahækkun afturvirkt!“ skrifar Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, í pistli sem birtist á heimasíðu sambandsins í dag.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við mbl.is í vikunni sem leið að kröfur flugvirkja væru fullkomlega óraunhæfar. Þá sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í þættinum Víglínunni á Stöð 2 i gær að ef það væri rétt að menn væru að tala um 20 prósent hækkanir á einu ári, þá væri það langt umfram efnahagslegan stöðugleika og framtíð launastrúktúrsins í landinu.

„Það er þessum aðilum verulega til minnkunar að koma núna fram og vara við því að almennt launafólk megi ekki fá svona miklar hækkanir, sem er innan við helmingur af þeirra eigin launahækkun, því þá fari allt á hliðina. Þeir ættu hreinlega að skammast sín að vera ekki búnir að bregðast við kröfum almennings um að alþingismenn fylgi sömu línu og aðrir því geri þeir það ekki munu aðrir sækja sér samanburð í þeirra launahækkun,“ segir Kristján. Hann segir miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins sem og trúnaðarmannaráðstefnur síðustu tveggja ára hafa varað við þessari stöðu en Alþingi hafi ekki hlustað. „Það er því réttast að Alþingi og ríkisstjórnin líti í eigin barm og átti sig á því að þeirra er ábyrgðin.“

Verkfall flugvirkja Icelandair hófst klukkan sex í morgun og hefur þegar þurft að aflýsa fjölda flugferða vegna þess. Fundur samningsaðila hefst á ný klukkan fimm í dag, en í samtali við mbl.is sagði Gunnar R. Jónsson, formaður samninganefndar flugvirkja, að hann vonaðist til að Icelandair myndi svara nýjasta tilboði flugvirkja. Hann bjóst við að fundað yrði langt fram á nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert