Verkfall flugvirkja hafið

Flugvirkjar Icelandair eru komnir í verkfall.
Flugvirkjar Icelandair eru komnir í verkfall. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verkfall flugvirkja Icelandair hófst klukkan sex í morgun, eftir að maraþonfundi samninganefnda lauk á þriðja tímanum í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá Elísabetu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra embættis ríkissáttasemjara, hefur ekki verið boðaður annar fundur í deilunni, en deiluaðilar höfðu setið á fundi frá því tvö í gærdag og þar til fundi lauk í nótt.

RÚV hefur eftir Magnúsi Jónssyni aðstoðarríkissáttasemjara að hann hafi metið stöðuna sem svo, að of mikið bæri í milli til að ástæða væri til að halda viðræðum áfram og því slitið fundi.

Hefur fréttastofan einnig eftir Gunnari R. Jónssyni, formanni samninganefndar flugvirkja, að niðurstaðan sé vonbrigði. Flugvirkjar hefðu lagt fram tilboð en ekki fengið nein svör frá Icelandair. „Það voru nokkur tilboð búin að ganga á milli í kvöld og nótt og það síðasta kom frá okkur. Við áttum satt að segja von á að fá svar við því, en það gerðist ekki,“ sagði Gunnar. Flugvirkjar hefðu verið búnir að slaka á sínum kröfum en samt hefði farið svona.

Á vef Icelandair segir að gera megi ráð fyrir einhverri röskun á áætlunarflugi flugfélagsins í dag. Flugfélagið muni þó gera sitt besta til að halda flugáætlun gangandi í dag en búast megi við seinkunum á morgunflugi út úr Íslandi. 

Þegar hefur verið aflýst flugi Icelandair til Zürich, Brussel og Oslóar í dag og þær vélar flugfélagsins sem áttu að leggja af stað um og upp úr hálfátta í morgun voru ekki farnar í loftið rúmlega átta. Enn var þá beðið eftir upplýsingum varðandi flug til Helsinki, Glasgow, Parísar, Berlínar, Kaupmannahafnar og Hamborgar. Þá virðast farþegar í vél á leið til Frankfurt, sem átti að fara af stað 7.30 í morgun, sitja lokaðir úti í vél.

Áður hafði komið fram á vef flugfélagsins að verkfallið myndi að líkindum lítið raska flugáætlun þess í dag. Öðru máli gegnir um næstu daga.

Er farþegum bent á að hafa samband við Icelandair í gegnum Facebook Messenger, spjall á vefsíðu félagsins eða með því að hringja í síma 5050100 ef spurningar vakna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert