Flestir þeirra sem voru strandaglópar hér á landi í gær komust í flug í dag að sögn Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Vandinn er þó ekkert leystur með því, af því að á meðan að ekki er verið að fljúga nema lítinn hluta af venjulegri áætlun þá eru fjölmargir sem eru í vandræðum bæði hér og úti í heimi.“
Icelandair hefur fellt niður 29 áætlunarflug frá því að flugvirkjar flugfélagsins hófu verkfall klukkan sex í gærmorgun. Um 5.000 manns komust ekki leiðar sinnar í gær og má búast við enn meiri röskun í dag þar sem að fleiri flug voru felld niður. „Við erum að fella niður 17 flug í dag og stefnum að því að fljúga sex flug, þrjú til Evrópu og þrjú til Ameríku,“ segir Guðjón.
Icelandair hefur í dag lagt kapp á að fá fólk sem ætlar að millilenda á Íslandi til þess að fljúga á annan hátt á sinn lokaáfangastað. Spurður hvernig það gangi segir Guðjón ganga á ýmsu. „Það hefur gengið í rauninni vel, en það er ekkert þannig að það sé auðvelt eða að allir séu jafn sáttir við það. Það getur kostað heilmikla röskun hjá fólki að skipta um á síðustu stundu og heilt yfir þá er þetta mjög erfitt ástand og snertir mjög marga illa.“
Mikið álag var á skrifstofu Icelandair á Keflavíkurflugvelli í gær, en ástandið á skrifstofunni í dag er öllu rólegra. Það sama er ekki að segja um þjónustuverið. „Við erum núna með á annað hundrað manns niðri í þjónustuverinu. Þar situr fólk við tölvur og er að leysa úr málum, bæði í gegnum síma og ekki síður í gegnum samfélagsmiðlana sem eru mikið notaðir í þessu og hentar vel.
Þjónustuverið er venjulega mannað allan sólarhringinn, en fjöldi starfsmanna í verinu nú er töluvert meiri en venjulega að sögn Guðjóns. „Það eru núna allir sem kunna þessi handbrögð að hjálpa til og þetta er mikill fjöldi fólks sem situr við.“
Mikið álag er á starfsfólkinu og segir Guðjón það eins og við sé að búast. „Það er fullkomlega skiljanlegt að fólk sé sárt og reitt þegar það lendir í þessari aðstöðu og það þarf bara að glíma við það eins og annað. Langflestir eru þó rólegir og hafa skilning á stöðunni. Það fylgir svona uppákomum sem setja áætlanir fólks úr skorðum, hvort sem að það er veður, bilanir eða verkföll, að það eru ekki allir jafn sáttir við það.“
Spurður hversu marga farþega hann telji að verkfallið hafi áhrif á í dag segir hann erfitt að áætla slíkt. „Samkvæmt venjulegri áætlun þá erum við að flytja 10.000 manns á dag þessa daga. Síðan verður röskun og það þarf að fella niður flug í stórum stíl og aðrir verða fyrir mikilli seinkunn þannig að það má eiginlega segja að það séu allir sem verða fyrir þessu með einhverjum hætti, misalvarlegum þó.“
Mörg þúsund manns hafi lent í því að flugi þeirra sé aflýst, einhverjir þeirra hafi komist á áfangastað með öðrum leiðum og séu kannski þokkalega vel staddir en aðrir ekki. „Þannig að þetta hefur áhrif á meira og minna alla okkar farþega.“
Mikill fjöldi farþega Icelandair eru erlendir ferðamenn, en einnig er líka mikið um Íslendinga sem ýmist ætluðu sér heim um jólin eða að eyða þeim utan landsteinanna og segir Guðjón starfsfólk Icelandair ekki síður heyra í þeim. „Þetta er sá árstími sem fólk fer m.a. í fjölskylduferðir og er búið að kaupa gistingu og annað úti í heimi sem kostar mikla peninga,“ segir hann. Aðrir eigi önnur erindi út sem skipti þá ekki minna máli. Starfsfólk Icelandair reyni að aðstoða þetta fólk eftir besta megni.
Spurður hvort að menn hjá Icelandair séu farnir að leiða hugann að flugáætlun morgundagsins segir svo vera. „En það er enn ekki byrjað að stilla upp hvernig áætlunin getur orðið.“