Lögðu hald á amfetamínbasa og MDMA

Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol og Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn …
Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol og Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert

Þrír menn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um innflutning og framleiðslu á fíkniefnum, peningaþvætti og fjársvikum. Mennirnir eru allir pólskir ríkisborgarar og voru handteknir hér á landi 12. desember.

Rannsóknin hófst í Póllandi árið 2014 en samstarfsverkefni ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, Héraðssaksóknara og tollstjóra í samstarfi við pólsk og hollensk yfirvöld svo og evrópustofnanirnar Europol og Eurojust hafa staðið yfir í nokkra mánuði. Alls hafa 20 manns verið handteknir í aðgerðunum. 

„Stór sigur“

„Þetta er stór sigur sem við getum tilkynnt í dag“, segir Kamil Bracha, rannsóknarlögreglustjóri Póllands. Hann segir að mennirnir sem voru handteknir hér á landi séu allir vel þekktir í Póllandi fyrir glæpastarfsemi af þessu tagi og hafi verið dæmdir í fangelsi í heimalandinu. Að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafa mennirnir þrír verið búsettir hér á landi um nokkra hríð.

Telja að fíkniefnaframleiðsla fari fram á Íslandi

Í aðgerðunum var lagt hald á amfetamínbasa. Að sögn Gríms er talið að hægt sé að framleiða allt frá 50-80 kíló af amfetamíni úr basanum. Amfetamínbasinn gefur það einnig til kynna að mati Gríms að hér á landi fari fram fíkniefnaframleiðsla. Lögreglan hefur hins vegar ekki fundið staðsetningu hér á landi þar sem slík framleiðsla fer fram.

Einnig var lagt hald á MDMA sem talið er að hægt væri að framleiða um 26 þúsund e-töflur úr.

Hald lagt á eignir fyrir rúmlega 200 milljónir

Karl Steinar Valsson, fulltrúi hjá Europol, segir að um fjölþætta brotastarfsemi sé að ræða. Hann greindi frá því að eignir sem metnar eru á um 200 milljónir króna hafi verið haldlagðar í aðgerðununum. Fjármunirnir voru í húseignum, bílum, innstæðum á bankareikningum og hlutum í fyrirtækjum, að sögn Gríms.

Í tilkynningu sem birt hefur verið á vef Europol kemur fram að alls hafi verið lagt hald á fjárnumi sem nema um 1,8 milljónum evra, eða um 225 milljónum króna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka