Telur Icelandair stóla á lagasetningu

Boeing 767 þota Icelandair.
Boeing 767 þota Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta lyktar svolítið af því að þeir séu farnir að stóla á lagasetningu,“ segir Gunnar R. Jónsson, formaður samninganefndar flugvirkja, um Icelandair.

Hann segir stöðuna vera orðna strembna og að Icelandair hafi ekki sýnt fram á mikinn samningsvilja í fundarhöldunum í gær.

„Við áttum von á því að þetta myndi klárast í gær. Það kom okkur mjög á óvart að Icelandair skyldi hafna sáttatillögu ríkissáttsemjara sem við vorum búnir að samþykkja,“ segir Gunnar en bætir við að tillagan hafi verið óformleg. 

Magnús Jónsson aðstoðarríkissáttasemjari sagði við mbl.is í morgun að hann hefði ekki lagt fram sáttatillögu í deilunni heldur hafi aðeins verið um óformlegar þreifingar að ræða. Það kemur einnig fram á vefsíðu ríkissáttasemjara

Spurður hvort flugvirkjar hafi verið ánægðir með tillöguna segir Gunnar þá ekki beint hafa verið ánægða með hana en þeir hafi ákveðið að fallast á hana. „Við vorum að teygja okkur svolítið á móti.“

Hann hafði ekki fengið fundarboð frá ríkissáttasemjara um næsta sáttafund í deilunni þegar blaðamaður hafði samband við hann.

Frá Keflavíkurflugvelli í morgun.
Frá Keflavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert