Icelandair ætlar að reyna að koma fullri áætlun sinni í gang í dag, en þó geta seinkanir orðið á flugi. Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri flugfélagsins, þegar mbl.is náði stuttlega tali af honum í nótt.
Björgólfur segir að búið sé að senda upplýsingar í gegnum sms-skilaboð á farþega sem eigi bókað flug með félaginu í dag og gera viðvart á svokölluðu „travel alert“-kerfi um að flug eigi að hefjast í dag. Eru farþegar hvattir til að fylgjast með upplýsingum frá flugfélaginu og á vefsíðu Keflavíkurflugvallar.
Í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar kemur fram að samningur Icelandair og Flugvirkjafélagsins Íslands sem skrifað var undir í nótt gildir til 31. desember 2019, en hann fer næst í kynningu og atkvæðagreiðslu hjá FVFÍ og er verkfalli sem staðið hefur yfir í tvo sólarhringa frestað meðan á atkvæðagreiðslunni stendur.