Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er að vonum sáttur við að samningar hafi náðst við Flugvirkjafélag Íslands í nótt í kjaradeilunni vegna Icelandair.
„Það er ánægjulegt að samningar hafi náðst í þessari krefjandi kjaradeilu,“ segir hann en viðræðurnar höfðu staðið yfir síðan í júlí.
Málinu var vísað til ríkissáttasemjara 8. september en samningar flugvirkja við Icelandair og fleiri aðila runnu út 31. ágúst.
Samningurinn er til 28 mánaða, að sögn Halldórs. „Það er ánægjulegt að það sé hægt að loka þessu í svona langan tíma.“
Næsta skref er að kynna samninginn fyrir félagsmönnum í Flugvirkjafélagi Íslands, þar sem greidd verða atkvæði um hann.
Alls starfa 280 flugvirkjar hjá Icelandair og í heildina eru rúmlega 500 flugvirkjar í Flugvirkjafélagi Íslands.