Reikna má með því að verð á bensínlítra hækki um 5,20 krónur um áramótin og lítri af dísilolíu um 5,40 krónur samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir því að eldsneytisgjald á bensín og olíugjald hækki um 2% og er þá miðað við verðlagsforsendur. Vörugjald á bensíni er nú 26,80 krónur og sérstakt vörugjald 43,25 krónur.
Þessi gjöld hækka í 27,35 krónur og 44,10 krónur, samkvæmt frumvarpi um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018. Olíugjald, sem leggst á hvern lítra af dísilolíu, er nú 60,10 krónur en verður 61,30 krónur. Ofan á þessar fjárhæðir leggst virðisaukaskattur.