Strax og kjarasamningur Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins var undirritaður í nótt gengu flugvirkjar hjá Icelandair til starfa og fóru að gera flugvélar klárar til flugs.
Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Hann bætir við að allt sé núna á rétti leið hjá flugfélaginu eftir um tveggja sólarhringa verkfall flugvirkja sem varð til þess að fjölda flugferða var aflýst með tilheyrandi vandkvæðum.
„Við erum að sjá áætlunina í morgun ganga mjög vel, með allnokkurri seinkun að vísu. Það er verið að fljúga á nánast alla staði og við sjáum ekki annað en að það gæti gengið líka síðdegis í dag,“ segir Guðjón og býst við því að allt verði komið í eðlilegt horf á morgun. Flestir farþegar muni þó komast á áfangastað í dag.
Spurður út í kostnaðinn sem hlýst af verkfallinu segir Guðjón að hann verði skoðaður núna í framhaldinu. Stór kostnaðarliður hefur verið að koma farþegum yfir á önnur flugfélög, auk þess sem farþegum hefur meðal annars verið endurgreiddur kostnaður sem fylgir því að fara á hótel.