Fulltrúaráð STEFs hafnaði á fundi sínum í gær kæru á ráðningu Stefáns Hilmarssonar tónlistarmanns í starf forstöðumanns rekstrarsviðs.
„Málinu var bara vísað frá,“ segir Jakob Frímann Magnússon, stjórnarformaður STEFs, sem kveður um „innanhússmál“ að ræða og kæran sé einfaldlega „skoðanir einhvers manns úti í bæ“.
Tilkynnt var um ráðningu Stefáns í september en Hjálmar H. Ragnarsson, fyrsti rektor Listaháskóla Íslands og fyrrverandi formaður Tónskáldafélags Íslands, kærði hana til fulltrúaráðs STEFs í október. Kæruna lagði hann annars vegar fram á þeim grundvelli að Stefán væri vanhæfur til starfsins sökum persónulegra hagsmuna þegar kæmi að innheimtu og úthlutun höfundarréttartekna en einnig telur Hjálmar stjórn STEFs hafa farið „langt út fyrir verksvið sitt við ráðninguna og þverbrotið um leið samþykktir samtakanna“, að því er segir í kærunni.
Í samtali við mbl.is þvertekur Hjálmar fyrir að hann eigi sjálfur nokkurra hagsmuna að gæta, utan þess að vera sjálfur venjulegur rétthafi. Hann hafi ekki sóst sjálfur eftir starfinu, sé ekki aðili í stjórn eða að starfi félagsins. Hins vegar sé um prinsippmál í stjórnun að ræða.
Hann bendir á að um þessar mundir berist félagsmönnum tölvupóstar um úthlutanir ársins. Þeir séu allir merktir Stefáni.
„Sem er væntanlega líka að senda sjálfum sér svona póst,“ segir Hjálmar. „Með tilkynningu um úthlutun.“
Segir hann samtök á við STEF byggjast á trausti, m.a. gagnvart því að þeir sem fari með fjármunina eigi ekki eigin hagsmuna að gæta.
„Þegar svona mál koma upp, að stjórnin starfar ekki eftir samþykktum og það eru ráðningar inn í æðstu störf þar sem fólk situr beggja vegna borðsins, þá er þessu trausti ógnað.“
Forveri Stefáns í starfi mun hafa haft titilinn skrifstofustjóri. Í atvinnuauglýsingu sem birtist á vefsíðu STRÁ Starfsráðninga ehf. í júlí er hins vegar lýst eftir forstöðumanni rekstrarsviðs og starfssvið hans tíundað svo:
„Forstöðumaður rekstrarsviðs annast daglegan rekstur skrifstofu STEFs, fjármálastjórn og starfsmannahald. Hann hefur yfirumsjón með úthlutunum og samskiptum við félagsmenn auk þess að annast samskipti við systursamtök erlendis.“
Í kæru Hjálmars segir að grundvallaratriði sé að rétthafar geti haft fullkomið traust á því að enginn möguleiki sé á að fara á svig við reglurnar og viðmiðin sem gilda. Þar skipti máli að starfsmenn STEFs séu fullkomlega hlutlausir gagnvart rétthöfum og hafi undir engum kringumstæðum eigin hagsmuna að gæta. Bara sá möguleiki að einhver geti setið beggja vegna borðsins, við innheimtu eða úthlutun tekna, geri þá vanhæfa til starfa. Í framhaldinu bendir Hjálmar á afrek og vinsældir Stefáns á sviði popptónlistar og ætlar að hann sé í hópi tekjuhærri rétthafa og hafi því umtalsverðra hagsmuna að gæta gagnvart STEFi.
„Það er engin ástæða á þessu stigi til að ætla að Stefán notfæri sér þessa sérstöku aðstöðu sér til hagsbóta,“ skrifar Hjálmar í kærunni. „En bara sú staðreynd að hann gæti gert það ef hann vildi gerir hann vanhæfan til starfsins.“
Eins og áður kom fram byggist kæra Hjálmars einnig á því að ráðningin hafi brotið gegn samþykktum STEFs.
Vísar hann þar sérstaklega í samþykkt 4.8 þar sem segir að framkvæmdastjóri sé ráðinn af stjórn, en það sé hlutverk framkvæmdastjóra að ráða annað starfsfólk.
Sú var hins vegar ekki raunin við ráðningu Stefáns. Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs, fór vissulega yfir umsóknir og tók viðtöl við umsækjendur en bar þá helstu síðan undir stjórn félagsins. Stjórnin tók svo nokkra þeirra í viðtal og átti lokaákvörðunina.
Í svari við fyrirspurn Hjálmars um ráðninguna, dagsett 21. september, skrifar Jakob að stjórnin hafi ákveðið „að nýr forstöðumaður rekstrarsviðs muni framvegis heyra undir framkvæmdastjóra og stjórn, eins og segir í ráðningarsamningi“.
Í samþykkt 4.8 kemur einnig fram að framkvæmdastjóri getur neitað að framkvæma ákvarðanir stjórnar eða fulltrúaráðs, telji hann þær brjóta í bága við þau lög eða reglur sem samtökin skulu starfa eftir. Þá beri að skjóta málinu til menntamálaráðuneytisins sem hafi endanlegt úrskurðarvald. Það virðist Guðrún hins vegar ekki hafa gert, en tekið skal fram að ekki náðist í Guðrúnu við gerð fréttarinnar.
Í kæru sinni beindi Hjálmar því til fulltrúaráðsins að ráðningin yrði afturkölluð en hann fór einnig fram á að hlutlaus rannsókn yrði gerð á þætti stjórnarinnar í þessu máli. Nú er ljóst að fulltrúaráði þótti ekki tilefni til þess og Jakob Frímann telur reyndar að um einhvers konar ófrægingarherferð sé að ræða.
„Svona hugarþel, við höfum aldrei kynnst því áður í STEFi,“ segir hann.
Jakob segir einfaldlega ekki í boði fyrir nokkurn starfs- eða stjórnarmann STEFs að nýta sér úthlutunarkerfi með óheiðarlegum hætti. Slíkar vangaveltur séu skynvilla byggð á misskilningi.
„Það er fjöldi fólks sem fjallar um þessar úthlutanir, þetta er byggt á rafrænum gögnum og útilokað fyrir einhvern einn starfsmann að ætla að fara að hafa áhrif á það.“
Aðspurður hvort málið hafi ekki verið rætt efnislega á fundinum segir Jakob að einhverjir „gamlir nemendur“ og „undirsátar“ Hjálmars hafi „borið þetta inn“. Fulltrúaráðið sé hins vegar skipað 21 manni, ályktun hafi verið lögð fram um að vísa málinu frá og sú hafi verið samþykkt með kosningu.
„Það er búið að vera að vinna mjög mikla og góða vinnu í STEFi og færa það til nútímalegra og opinna stjórnsýsluhátta,“ segir Jakob og bætir því við að Stefán sé mikill happafengur fyrir STEF.
„Það er ekki hægt að hugsa sér betri liðsmann, sem hefur mjög farsæla sögu sem höfundur, flytjandi, útgefandi, tónleikahaldari, samningamaður. Það er eins og þú myndir kalla það á ensku: „No brainer“.“
Jakob segir STEF einfaldlega velja besta mögulega starfskraftinn og sterkustu málsvarana út á við. Því verði haldið áfram. Hann gefur lítið fyrir athugasemdir Hjálmars, segist óska honum alls hins besta en hvetur hann einnig til að „finna sér verðugri viðfangsefni í lífinu“.
„Það að einhverjum einum litlum höfundi detti í hug að gera athugasemd við hver er ráðinn sem skrifstofumaður, eða sem bókhaldari, eða sem sendill, það varðar mig bara ekkert um. Og bið þá hina sömu að finna sér eitthvað betra til, kannski reyna að semja einhver almennileg lög.“
Hvað Hjálmar varðar hafnar hann því alfarið að hann standi í ófrægingarherferð. Hann segir að ekki sé um neitt persónulegt að ræða af sinni hálfu, honum misbjóði einfaldlega stjórnarhættirnir. Fullyrðir hann að það sama gildi um marga aðra tónlistarmenn.
„Niðurstaða fundarins veldur mér auðvitað miklum vonbrigðum, en kemur mér ekki á óvart,“ segir hann. Hann kveðst í raun ekki hafa fengið nein svör hvað efnisatriði kærunnar varðaði en í ályktuninni, sem hann fékk senda, er ekki fjallað efnislega um kæruna.
„Ég hreinlega óttast um þetta traust milli samtakanna, rétthafanna og almennings í landinu,“ segir Hjálmar. „Þau vinnubrögð sem höfð eru í frammi gagnvart afgreiðslu þessarar ályktunar eru ekki samtökunum boðleg.“