Tuttugu og þrír stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt fram frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum um „bann við beitingu stafræns kynferðisofbeldis“ líkt og segir í greinargerð. Refsing verði lögð við því að dreifa mynd- eða hljóðefni sem sýni nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans, allt að sex ára fangelsi.
„Með tækniframförum síðastliðinna ára og áratuga hefur það fæst verulega í aukana að mynd- og hljóðefni sem inniheldur nekt eða kynlífsathafnir einstaklinga sé dreift á internetinu, án þess að efnið hafi nokkurn tíma verið ætlað til dreifingar, án leyfis þeirra sem koma fram í efninu og jafnvel án þeirra vitundar,“ segir ennfremur. Slíkt efni hafi stundum verið nefnt „hefndarklám“ eða „hrelliklám“ þó þau hugtök séu ekki lýsandi fyrir verknaðinn.
Mat flutningsmanna er að núverandi löggjöf taki ekki með nægjanlegum hætti á umræddri heggðun og fyrir vikið sé þörf á lagabreytingu, en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. „Það að birta mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðan einstaklinga án þeirra samþykkis er brot gegn friðhelgi einstaklings og ein gerð kynferðisofbeldis.“
„Það er skylda samfélagsins að viðurkenna ofbeldið og að tryggja að við beitingu þess séu í gildi viðurlög. Í því felst viðurkenning á stöðu brotaþola og fordæming á háttsemi brotamanna. Beiting stafræns kynferðisofbeldis getur haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola. Þá er það sérstaklega varhugavert í ljósi þess að ofbeldið fer fram fyrir opnum tjöldum og hefur þannig áhrif á samfélagslega stöðu brotaþola.“