Askja fagnar ákvörðun Neytendastofu

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju. mbl.is/Golli

Bílaumboðið Askja segist vera sátt við ákvörðun Neytendastofu varðandi villandi auglýsingar á Kia-bílum og mun umboðið bregðast vel við tilmælum sem koma fram í ákvörðuninni. 

Í niðurstöðu Neytendastofu kom fram að Askja hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu á tvíþættan hátt og einnig hafi fyrirtækið brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán.

„Við hjá Öskju erum sátt við ákvörðun Neytendastofu því við teljum að hún skýri betur þær leikreglur sem gilda á bílamarkaðnum. Askja mun því bregðast vel við þeim tilmælum sem koma fram í ákvörðun Neytendastofu,“ segir í Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Frá bílaumboðinu Öskju.
Frá bílaumboðinu Öskju.

„Til skýringar má þó nefna að bílar eru seldir með mismunandi ábyrgð framleiðanda, sem er ætlað að tryggja betri rétt kaupenda. Í tilviki Kia er gildistími ábyrgðarinnar 7 ár sem er það mesta sem gerist á markaðnum. Forsenda 7 ára ábyrgðar Kia er að eigandi bílsins láti sinna reglulegu þjónustueftirliti skv. fyrirmælum framleiðanda. 7 ára ábyrgð Kia er einstök og við höfum alltaf lagt okkur fram um að kynna hana vel. Allar upplýsingar og skilmálar eru aðgengilegir á vef okkar og í íslenskri þjónustubók sem fylgir hverjum bíl,“ bætir hann við í tilkynningunni.

„Varðandi upplýsingar um bílalán þá hefur Askja birt árlega hlutfallstölu kostnaðar varðandi mánaðarlega afborgun af bílalánum með auglýsingum fyrirtækisins. Eins og fram kemur í ákvörðun Neytendastofu hafa þær upplýsingar verið réttar en við munum gera enn betur til þess að auðvelda neytendum samanburð á fjármögnunarleiðum. Heilt yfir er ákvörðun Neytendastofu leiðbeinandi fyrir aðila bílamarkaðsins svo við hjá Öskju fögnum henni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert