Auglýsingar á Kia-bílum villandi

Askja verður að gera grein fyrir skilmálum um þjónustuskoðun í …
Askja verður að gera grein fyrir skilmálum um þjónustuskoðun í auglýsingum sínum.

Neytendastofa hefur ákvarðað að bílaumboðið Askja hafi brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu á tvíþættan hátt. Einnig var brotið gegn ákvæðum laga um neytendalán.

Annars vegar með því að auglýsa sjö ára ábyrgð á Kia-bifreiðum án þess að fram komi skilyrði um að bifreiðin fari í reglulegar þjónustuskoðanir sem fela í sér viðbótarkostnað. Neytendastofa komast að þeirri niðurstöðu að auglýsingarnar væru villandi fyrir vikið.

Stofnunin féllst hins vegar á þau rök Öskju að það væri villandi að birta kostnað við þjónustuskoðanir í auglýsingum, enda væri hann misjafn eftir aldri, tegund bíls og akstursmynstri. Þá gætu eigendur bílanna valið aðra þjónustuaðila til að framkvæma skoðanirnar.

Hins vegar með því því að birta ófullnægjandi upplýsingar um neytendalán í auglýsingum.

Af hálfu bílaumboðsins Öskju hafa verið færð fram rök fyrir því að allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram. Með því að gefa upp árleg hlutfallstala kostnaðar liggi heildarlántökukostnaður miðað við þann fjármögnunarkost sem kynntur sé í auglýsingunni fyrir.

Neytendastofa gerði við meðferð málsins ekki athugasemdir við útreikning eða birtingu árlegrar hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingum. Stofnunin getur þó ekki fallist á að birting árlegrar hlutfallstölu kostnaðar uppfylli jafnframt skyldu til upplýsinga um heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða.

Fari Askja ekki að fyrirmælum Neytendastofu má búast við að tekin verði ákvörðun um að beita bílaumboðið sektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert