Kvartanir núverandi, fyrrverandi og tilvonandi nemenda í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands vegna námsefnis Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, verða teknar fyrir á deildarfundi stjórnmálafræðideildar í hádeginu á morgun.
Í yfirlýsingu sem um 70 til 80 manns hafa skrifað undir kemur fram að námsefnið, sem Hannes samdi sjálfur, þyki ala á kvenfyrirlitningu og fordómum.
Að sögn Guðmundar Ragnars Frímanns, formanns félags stjórnmálafræðinema við háskólann, byrjaði málið á lokaðri Facebook-síðu stjórnmálafræðinema með litlum hópi nemenda Hannesar sem sat námskeið hans í stjórnmálaheimspeki á yfirstandandi haustönn. Hópurinn hafi stækkað umtalsvert síðan þá.
Í yfirlýsingu frá nemendunum er farið fram á að námsefnið verði tafarlaust tekið úr umferð og að Hannes Hólmsteinn verði formlega áminntur af háskólanum.
Guðmundur Ragnar er einn þeirra sem skrifa undir yfirlýsinguna. Hann segir námsefnið vera óviðeigandi og Hannes geti hvergi heimilda þegar hann færi rök fyrir máli sínu vegna vændiskaupa. Hann bætir við að vinnubrögðin séu ekki forsvaranleg í háskólaumhverfi.