„Okkur er misboðið“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls hafa 65 núverandi og fyrrverandi nemendur í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands skrifað undir yfirlýsingu vegna kennslubókar Hannesar Hólmsteins Gíslasonar, prófessors í stjórnmálafræði.

Yfirlýsingin hefur verið send á stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, rektor Háskóla Íslands og forseta félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Þar er þess krafist að Hannes Hólmsteinn verði formlega áminntur og að hann kenni ekki skyldunámskeið við stjórnmálafræðideildina.

Einnig er þess krafist að bókin Saga stjórnmálakenninga eftir Hannes verði tafarlaust tekin úr umferð sem kennslugagn.

„Við krefjumst þess að við getum stolt sagt frá því að hafa útskrifast frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Okkur er misboðið,“ segir í yfirlýsingunni.

Baldur Þórhallsson, deildarforseti stjórnmálafræðideildar, sagði í kvöldfréttum RÚV að kvartanir hefðu borist og þær væru litnar alvarlegum augum. Málið sé nú komið í formlegt ferli en ekki náðist í Hannes Hólmstein við vinnslu fréttarinnar.

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Yfirlýsingin í heild sinni: 

„Í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands er kennslubók og kennsluhættir sem innihalda kvenfyrirlitningu, fitufordóma, kynþáttafordóma og niðurlægjandi orð um fatlaða.

Við krefjumst þess að Háskóli Íslands og stjórnmálafræðideild taki ábyrgð.

Tíðar kvartanir hafa ekki skilað árangri og tökum við því þetta skref.

Lítilsvirðing á hópa og einstaklinga í kennslutímum og kennslugögnum í áfanganum Stjórnmálaheimspeki undir stjórn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar er ólíðandi.

Í Háskóla sem stefnir að því að vera meðal þeirra 100 bestu í heiminum getur þetta ekki viðgengist.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var dæmdur í Hæstarétti árið 2008 fyrir brot á höfundarréttarlögum.

Við krefjumst þess að Hannes Hólmsteinn Gissurarson verði formlega áminntur.

Við krefjumst þess að Hannes Hólmsteinn Gissurarson kenni ekki skyldunámskeið við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Við krefjumst þess að bókin Saga stjórnmálafræðikenninga eftir Hannes Hólmstein Gissurarson verði tafarlaust tekin úr umferð sem kennslugagn.

Við krefjumst þess að við getum stolt sagt frá því að hafa útskrifast frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Okkur er misboðið.

Við stöndum saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert